Á undanförnum árum hafa bókaútgefendur fengið endurgreiddan fjórðung kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku og á ráðstefnu þar sem endurgreiðslan var kynnti kom fram að hún hefði verið útgefendum mjög mikilvæg. Endurgreiðslur voru fyrst veittar 2020 og á árunum 2020–2022 var sótt um endurgreiðslu vegna kostnaðar sem nam 4.756 milljónum króna. 25% af þeirri upphæð voru endurgreidd til útgefenda, aðallega vegna prentkostnaðar og höfundarlauna.
Jakob F. Ásgeirsson stofnsetti bókaforlagið Uglu fyrir tuttugu árum og hefur rekið að mestu einn alla tíð. Hann segist almennt vera mótfallinn ríkisstyrkjum, en þetta sé guðsgjöf fyrir útgefendur. „Ég er nú ekki hlynntur svona, þó ég taki við þessu þakksamlega og reyni að leggja mitt af mörkum við að gefa út eitthvað sem tap er á, finnst ég bera skyldu til þess. Þetta hefur mjög mikið að segja og það hefðu örugglega nokkuð bókaforlög hætt starfsemi ef þetta hefði ekki verið ekki fyrir hendi, þó það megi kannski spyrja hvort það hefði skipt einhverju stórmáli. En þetta er eitthvað sem tíðkast í þessum menningargeira og einhverjir hagfræðingar hafa fundið upp á og reikna svo út að þetta skili sér þó það blasi ekki alveg við.
Ég get ekki sagt að þetta sé æskilegt en það er að vissu leyti mikilvægt hjá svona lítilli þjóð þar sem æ stærri hluti þjóðarinnar skilur ekki íslensku og mun ekki lesa íslensku fyrr en eftir tvær til þrjár kynslóðir í mesta lagi.
Það er líka mikilvægt að efla þýðingar með einhvers konar launasjóði þýðenda, þýðendur bera skarðan hlut frá borði.“
- Þetta er gert á þeirri forsendu að bókaútgáfa á íslensku sé mjög mikilvæg til að varðveita íslenskt mál.
„Það er alltaf smá óbragð af ríkisstyrktri starfsemi en ég tek þessu fagnandi og Lilja [Alfreðsdóttir Menningar- og viðskiptaráðherra] á heiður skilinn fyrir að hafa komið þessu á.“