Halla Tómasdóttir, sem bauð sig fram til forseta í kosningunum árið 2016, íhugar alvarlega að endurtaka leikinn og bjóða sig fram til forseta Íslands. Hún segist hafa fengið hvatningu hvaðanæva af landinu um að fara fram.
„Ég hef lofað að íhuga þetta alvarlega en ég er í krefjandi starfi og hleyp ekki frá mikilvægum verkefnum þar. Ég hef fengið mikla og breiða hvatningu, hvaðanæva af landinu og þykir ákaflega vænt um það. Ég hef einlæga trú á Íslandi og hvernig embætti forseta getur styrkt samfélag okkar og látið til sín taka í samfélagi þjóða,“ segir Halla í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is
Halla er nú forstjóri B team og hefur aðsetur í New York.
Forsetakosningar fara fram í júní á þessu ári og þegar hafa fimm frambjóðendur lýst yfir framboði. Það eru þau Axel Pétur Magnússon, Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Tómas Logi Hallgrímsson og Sigríður Hrund Pétursdóttir.