Heildarlandris og kvikumagn undir Svartsengi er nú svipað og þegar eldgos hófst 8. febrúar við Sundhnúkagígaröðina.
Um 8,5 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast í kvikuhólfinu. Er það svipað magn af kviku og fór úr Svartsengi í síðasta eldgosi. Auknar líkur eru á eldgosi eða kvikuinnskoti á næstu dögum.
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
„Við erum akkúrat að komast á þann punkt sem var fyrir síðasta gos,“ segir Benedikt og vísar þá bæði til stöðu landriss og kvikumagns.
„Heildarbreytingin á milli atburða er mjög svipuð.“
Þó aðdragandinn núna sé mjög svipaður þeim sem varð fyrir síðustu gos er ómögulegt að fullyrða hvað gerist næst, að sögn Benedikts. Jarðskorpan breytist með hverjum atburði og eru ótal ómælanlegar breytur sem geta haft áhrif á framvinduna.
„Mögulega gerist eitthvað sem veldur því að það tefst fyrir eða þróunin verði öðruvísi en við erum ekki að sjá nein merki um það. En ég myndi halda að það væri líklegt að á næstu dögum komi gos, um helgina jafnvel,“ segir Benedikt.