Landris og kvikumagn orðið svipað og síðast

Vinna við varnargarða nálægt Svartsengi og Bláa lóninu í síðustu …
Vinna við varnargarða nálægt Svartsengi og Bláa lóninu í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heildarlandris og kvikumagn undir Svartsengi er nú svipað og þegar eldgos hófst 8. febrúar við Sundhnúkagígaröðina.

Um 8,5 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast í kvikuhólfinu. Er það svipað magn af kviku og fór úr Svartsengi í síðasta eldgosi. Auknar líkur eru á eldgosi eða kvikuinnskoti á næstu dögum.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands. 

„Við erum akkúrat að komast á þann punkt sem var fyrir síðasta gos,“ segir Benedikt og vísar þá bæði til stöðu landriss og kvikumagns.

„Heildarbreytingin á milli atburða er mjög svipuð.“

Ómælanlegar breytur sem geta haft áhrif

Þó aðdragandinn núna sé mjög svipaður þeim sem varð fyrir síðustu gos er ómögulegt að fullyrða hvað gerist næst, að sögn Benedikts. Jarðskorpan breytist með hverjum atburði og eru ótal ómælanlegar breytur sem geta haft áhrif á framvinduna.

„Mögulega gerist eitthvað sem veldur því að það tefst fyrir eða þróunin verði öðruvísi en við erum ekki að sjá nein merki um það. En ég myndi halda að það væri líklegt að á næstu dögum komi gos, um helgina jafnvel,“ segir Benedikt. 

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur …
Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Staða kvikusöfnunar 28. febrúar er merkt með rauðu. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu. Mismiklar breytingar geta einnig sést á milli daga. Fjólubláa línan sýnir magn kviku sem safnaðist áður en kvikugangurinn mikli sem liggur undir Grindavík myndaðist 10. nóvember.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert