Sjálfboðaliðar kynna framtíðarstörf fyrir nemendum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra kynntu nýtt samstarfsverkefni sitt „Stækkaðu framtíðina“ á blaðamannafundi í Réttarholtsskóla í dag.

Verkefnið byggir á því að fá sjálfboðaliða til að kynna störf sín og menntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Markmið verkefnis er að víkka sjóndeildarhring barna og ungmenna, fá þau til að sjá frekari tilgang með námi og að kynna þau fyrir ólíkum fyrirmyndum úr atvinnulífinu.  

Á fundinum töluðu Sigurrós Eiðsdóttir íslenskukennari við Réttarholtsskóla, Guðrún Margrét nemandi í 10. bekk og Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis og sjálfboðaliði í verkefninu, um mikilvægi þess að krakkar fái alls konar fyrirmyndir. Dr Bryony Mathew sendiherra Bretlands á Íslandi ávarpaði einnig viðstadda en verkefnið byggir á breskri fyrirmynd. 

Auka viðsýn meðal barna og ungmenna

Áslaug Arna fékk veður af verkefninu, sem hefur gengið vel í Bretlandi, þegar hún átti samtal innan OECD um hvernig hægt er að bæta menntakerfið hér á landi og hvað þurfi að passa upp á.

„Eins og margir þekkja þá ætla þeir stundum að vera bara það sem foreldrar þeirra eru eða það sem þeir sjá víða í kringum sig. Ég ætlaði til dæmis að verða kennari eða lögfræðingur eins og mamma og pabbi eða hestakona af því það var áhugamálið mitt.“

Verkefnið var kynnt í Réttarholtsskóla í dag.
Verkefnið var kynnt í Réttarholtsskóla í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framtíðin sem blasir við okkur er þó þannig að þú ert ekki endilega að mennta þig fyrir eitt starf heldur ertu að ná þér í ákveðna færni og hæfni til að nýta til framtíðar í mörgum störfum bætir hún við.

„Við viljum biðla til fólks með alls konar bakgrunn í alls konar störfum til þess að taka þátt í þessu og sýna fram á fjölbreytileikann. Tengja atvinnulífið og samfélagið við skólana og sýna nemendum hvernig námið þeirra tengist framtíðarstörfum.“

Með verkefninu er einnig verið að sýna nemendum að það eru fjölbreytt kyn í mismunandi störfum líka og ýta burtu staðalímyndum um ákveðin störf.

Kennarar hafa kallað eftir verkfærum

Verkefnið Stækkum framtíðina fellur undir nýja þjónustustofnun á sviði menntamála, áður menntamálastofnun. Verkefnið er kynnt á gríðarlega mikilvægum tímamótum í íslensku menntakerfi segir Ásmundur Einar og bætir við að samfélagið hefur aldrei verið að undirbúa börn og ungmenni undir jafn óljósa framtíð og nú. 

Ásmundur Einar segir nýja þjónustustofnun muna í auknum mæli taka að sér verkefni sem þessi. „Kennararnir okkar eru að kalla eftir verkfærum. Þetta verkefni er eitt dæmi um það og það er ljóst að við þurfum fleiri svona sprota og aðstoð inn í íslenskt skólakerfi,“ segir hann.

Ráðuneytin tvö sem standa á bak við verkefnið fjármagna það en verkefnið byggir að mestu á þeim sem gefa tíma sinn. 

„Við erum að horfa til þess að íslenskt atvinnulíf aðstoði okkur við að byggja brú yfir í skólann, taki þátt í sjálfboðaliðastarfinu, og að atvinnurekendur gefi svigrúm til þess,“ segir Ásmundur. 

Vonast eftir þúsund sjálfboðaliðum

Markmið verkefnisins er að fá 1.000 sjálfboðaliða til að taka þátt en ný vefsíða verkefnisins hefur opnað nú þegar. Þar geta allir skráð sig sem sjálfboðaliðar. Þeir sem gera það fara inn á sérstakan gagnagrunn. Þar geta skólar og kennarar óskað eftir sjálfboðaliðum til að segja frá sínu áhugasviði, námi og starfi. Gert er ráð fyrir að sjálfboðaliðar heimsæki að minnsta kosti í einn skóla á ári í klukkustund. 

Ásmundur Einar Daðason ætlar sjálfur að taka þátt í verkefninu.
Ásmundur Einar Daðason ætlar sjálfur að taka þátt í verkefninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar gerir sjálfur ráð fyrir því að skrá sig. „Ef einhver einhvers staðar hefur áhuga á því að kynnast starfi ráðherra er hægt að kalla eftir því að ég komi inn í skólann og fjalla um starfið við nemendur,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert