Skólastjórnendur grunnskóla í Fjarðabyggð eru ósáttir við fyrirhugaðar breytingar á skólamálum þar og þær rangfærslur sem fram hafa komið í kjölfarið.
Skólastjórnendur skólanna funduðu í dag á Reyðarfirði og sendu í kjölfarið frá sér tilkynningu, þar sem þeir lýstu yfir óánægju sinni með breytingarnar, en þær fela í sér sameiningu allra skóla í Fjarðabyggð. Það er að allir grunnskólar sameinist undir Grunnskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna, allir leikskólar sameinist undir Leikskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna og að allir tónlistarskólar sameinist undir Tónlistarskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna.
Segja þeir í tilkynningunni að ekkert samráð hafi verið haft við skólastjórnendur eða aðra aðila skólasamfélagsins um þær breytingar sem um ræðir og að engar upplýsingar hafi komið fram um ofangreindar breytingar fyrr en við birtingu fundargerðar bæjarstjórnar að kvöldi 27. febrúar 2024.
„Fulltrúa skólastjórnenda grunnskóla í samráðshópi var meinað að eiga samráð við eða upplýsa aðra skólastjórnendur í sveitarfélaginu um starf hópsins. Tillögur fulltrúa skólastjórnenda voru virtar að vettugi og ekki tekið mark á þeim,“ segir í tilkynningunni.
Þeir segja jafnfram í tilkynningunni að þeir óttist að „verði fyrirhugaðar breytingar að veruleika þá muni skólaþjónusta við grunnskólabörn skerðast og vegið verði að lögvörðum réttindum þeirra til náms.“
„Lög um farsæld barna leggja ýmsar skyldur á aðila skólasamfélagsins. Skólastjórnendur óttast að ekki náist að uppfylla þær að fullu verði ofangreindar breytingar að veruleika,“ segir í tilkynningunni, sem vísar einnig í Kennarasamband Íslands, sem hafi bent á að tillögur bæjarstjórnar brjóti hugsanlega í bága við lög um grunnskóla sem og kjarasamninga Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga.