„Við erum að bíða eftir því að fá fundarboð frá ríkissáttasemjara til þess að geta haldið áfram viðræðum við breiðfylkinguna og klárað það sem stendur út af borðinu í þessum kjarasamningum sem við erum að gera.“
Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við mbl.is en SA fundaði með Starfsgreinasambandinu og Samiðn hjá ríkissáttasemjara í gær en Efling ákvað að stíga til hliðar og mætti ekki til fundar.
Sigríður Margrét sagði við mbl.is í gær það væri einlægur vilji SA að Efling kæmi aftur að samningaborðinu en Samtök atvinnulífsins líta ekki svo á að Efling hafi slitið kjaraviðræðum þrátt fyrir að hafa ekki mætt til fundar.
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is í morgun að ekki væri búið að taka neinar ákvarðanir um fundarhöld í dag en það yrði gert í samráði við samningsaðila.
„Við höldum áfram samtalinu þangað til við erum búin að klára kjarasamninginn. Við bíðum bara eftir fundarboði. Það stendur ekki á okkur,“ segir Sigríður Margrét.