Töluverð svifryksmengun er á höfuðborgarsvæðinu og nokkrir mælar í Reykjavík sýna slæm loftgæði.
„Það eru hækkandi svifryksgildi í borginni og það verður farið í að rykbinda götur í nótt,“ segir Svava S. Steinarsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
Hún segir að veðurspáin geri ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og þurru veðri næstu daga og til þess að reyna að draga úr svifryksmenguninni og halda henni fyrir neðan heilsuverndarmörk þá verði farið í að rykbinda götur.
„Mengunin rauk upp eftir morgunumferðina og það má búast við því að gerist aftur í seinni partinn. Við ætlum að reyna að rykbinda vel fyrir helgina til þess að reyna að halda þessu niðri. Það verður farið í að rykbinda þjóðvegina í þéttbýli, sem er á forræði Vegagerðarinnar, og stóru stofnbrautirnar sem eru innan borgarinnar. Við bindum á þessum lykilgötum þar sem mesta mengunin er að koma frá,“ segir Svava.
Hún segir að hæstu gildin séu í mælistöðinni við leikskólann við Klepp og við Grensásveg og svo sjáist hækkuð gildi á þeim stöðum sem eru við stórar umferðaræðar sem og við Húsdýragarðinn.