Vakti sofandi konu með öskrum og stakk hana

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 22. febrúar en …
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 22. febrúar en var birtur í dag, að lögreglu hafi borist tilkynning að kvöldi 2. júní 2022 um konu með óviðráðanlega blæðingu í Hafnarfirði. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 15 mánaða fangelsi fyrir rán og sérstaklega hættulega líkamsárás. Hann var einnig dæmdur til að greiða 1,1 milljón kr. í miskabætur 

Héraðssaksóknari ákærði manninn, Gabríel Aron Sigurðarson, í ágúst fyrir rán og sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa fimmtudaginn 2. júní 2022 brotist inn í íbúð í Hafnarfirði, og með hótunum, vopnaður hnífi, neytt konu til að afhenda sér 50.000 krónur og því næst reist hnífinn upp og með hótunum neytt hana til að afhenda honum 10.500 krónur í viðbót.

Við svo búið ruddist Gabríel inn í svefnherbergi þar sem önnur kona lá sofandi og vakti hana með öskrum og veittist að henni með ofbeldi og tók hana hálstaki og stakk hana með hnífnum í hægri framhandlegg og hægri fótlegg. 

Tilkynnt um konu með óviðráðanlega blæðingu

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 22. febrúar en var birtur í dag, að lögreglu hafi borist tilkynning að kvöldi 2. júní 2022 um konu með óviðráðanlega blæðingu í Hafnarfirði.

Tilkynnt var að ráðist hefði verið að konunni með hníf og að gerandi væri farinn af vettvangi á grárri bifreið af tegundinni BMW. Er lögreglumenn komu á vettvang mátti sjá blóðdropa á gólfi fyrir utan svefnherbergi. Inni í svefnherberginu lá brotaþolinn kona í blóði sínu og sjúkraflutningamenn voru að hlúa að sárum hennar.

Konan var með skurð á hægri framhandlegg sem og á vinstri fæti, fyrir neðan hné, sem hafði blætt talsvert úr. Konan var ekki viðræðuhæf á þessum tímapunkti en hún sagði að gerandinn hefði komið inn á meðan hún hefði legið sofandi í rúmi sínu. Hún var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku.

Var í miklu uppnámi

Á vettvangi var einnig hin konan, sem er eigandi íbúðarinnar. Hún var í miklu uppnámi en gat gefið skýran framburð. Hún sagði að maðurinn sem hefði komið heim til hennar væri Gabríel. Hann hefði komið vegna þess að hún skuldaði honum 40.000 krónur. Hann hefði komist inn í íbúðina í gegnum svaladyrnar í hennar óþökk.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Gabríel hafi neitað sök. Hann kvaðst hafa verið við vinnu á verkstæði vinar síns og ekki hafa komið á heimili brotaþola þetta kvöld. Þá hafi hann verið bíllaus og þurft að taka leigubíl heim þar sem lyklar að bifreið hans hafi verið í vörslum lögreglu.

Framburður kvennanna stöðugur

Héraðsdómur segir að framburður kvenanna hafi verið stöðugur um það allan tímann að Gabríel hafi verið sá sem kom og veittist að þeim umrætt sinn. Þær þekktu hann báðar og hafði konan sem særðist í árásinni þekkt hann lengi.

Tekið er fram að framburður brotaþolanna fái nokkra stoð í framburði vitnis sem kvaðst hafa heyrt konuna sem særðist kalla nafn ákærða og biðja hann að hætta í símtali til hans meðan atvikið átti sér stað.

Þá lýstu báðar konurnar Gabríel hefði verið í dökkri renndri flíspeysu, en ákærði var þannig klæddur við handtöku daginn eftir atvikið.

Verkstæðið í aðeins örfárra mínútna akstursfjarlægð

Í dómi héraðsdóms segir að af framburði kvennanna verði ráðið að atvik málsins hafi tekið skamma stund. Verkstæði það sem Gabríel var á hafi verið í einungis örfárra mínútna akstursfjarlægð. Af framburði vitnis á verkstæðinu verði ekki talið útilokað að Gabríel hefði getað farið út og framið brotin.

Þá segir að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að konurnar gætu verið að benda á rangan geranda og Gabríel hefur ekki getað bent á neina ástæðu sem þær hefðu til þess.

„Með hliðsjón af öllu framangreindu verður staðfastur og trúverðugur framburður brotaþolanna beggja lagður til grundvallar niðurstöðu málsins, en framburður þeirra samrýmist fyllilega og fær stoð í framburði vitnis og læknisfræðilegum gögnum. Verður þannig talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veist að brotaþolum með þeim hætti sem lýst er í ákæru,“ segir í dómnum. 

Sakaferillinn nær til ársins 2015

Þá segir að Gabríel eigi að baki nokkurn sakaferil sem nái aftur til ársins 2015.

Hann hlaut hlaut átta mánaða fangelsi fyrir ýmis brot með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2022. Þá hlaut hann fjögurra mánaða fangelsisdóm í Landsrétti árið 2023 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og gekkst undir viðurlagaákvörðun vegna umferðarlagabrots 31. maí 2023.

Í samræmi við framangreint verður honum nú gerður hegningarauki.

Gabríel var dæmdur til að greiða konunni sem særðist 800.000 kr. í miskabætur en hinni konunni 300.000 kr. og 612.000 kr. í málskostnað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert