„Versti dagur vetrarins“

Svifryk mælist hátt í Reykjavík.
Svifryk mælist hátt í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er slæmur dagur. Sérstaklega með tilliti til þess hversu svifryksgildin eru há á mörgum stöðum. Það mætti segja að þetta sé versti dagur vetrarins,“ segir Þorsteinn Jóhannesson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun. 

Vísar hann til mikillar svifryksmengunar við stóru umferðaræðarnar á höfuðborgarsvæðinu.  „Göturnar eru þurrar í fyrsta skipti í nokkrar vikur og nagladekkjarykið þyrlast upp,“ segir Þorsteinn. 

Hæsta gildið mældins við Grensásveg þar sem mengunin var 211 míkrögrömm í rúmmetra (µg/m). Viðmiðun­ar­mörk svifryks eru 50 míkró­grömm á rúm­metra á sól­ar­hring. 

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun Ljósmynd/aðsend

Fánar lafa og þurrt úti 

Þetta er í fyrsta skipti í vetur sem við sjáum svona há gildi. Bæði eru göturnar þurrar í fyrsta skipti í margar vikur og svo lafa fánar beint niður og nánast logn,“ segir Þorsteinn. 

Hann segir að sótið sé lítill hluti ryksins. Mest sé þetta vegryk sem myndast t.a.m. þegar nagladekk spæna upp malbikið.  

„Það hefur ekki verið hægt að sópa síðan í janúar. Því er þetta óvenju mikið núna.“

Myndu verða vikur að sópa borgina

Spurður hvað sé til bragðs að taka þá segir hann til lítils að að sópa við núverandi aðstæður. „Naglarnir slíta það hratt að við myndum ekki hafa undan. Við myndum vera vikur að sópa alla borgina við svona aðstæður,“ segir Þorsteinn. 

Hins vegar segir hann hægt sé að notast við saltblöndu magnesíum klóríðs. „Það bindur rykið gróflega í tvo daga,“ segir Þorsteinn.  

Að sögn hans munu Reykjavíkurborg og Vegagerðin rykbinda helstu stofnæðar í nótt. „Það er svona redding fyrir horn. Gatan helst rök í svona tvo daga eftir að sprautað er á hana. Þessi blanda frýs ekki,“ segir Þorsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka