Bókaforlagið Ugla fagnar tuttugu ára afmæli á árinu og frá því haustið 2004 hefur forlagið gefið út vel á sjötta hundrað bóka. Stofnandi útgáfunnar og útgáfustjóri alla tíð, Jakob F. Ásgeirsson, segir að þó oft sé um það talað að Íslendingar séu bókaþjóð, sé það rangnefni.
Yfirbyggingin á Uglu er ekki mikil, Jakob rekur útgáfuna með konu sinni, og var lengið með lager og skrifstofu í bílskúrnum heima hjá sér, þó hann sé nú búinn að koma sér upp lagerhúsnæði úti í bæ. Í viðtali í Dagmálum segir hann að bókaútgáfa á Íslandi hafi einmitt iðulega byggst á fyrirtækjum með litla yfirbyggingu, enda sé afkoman svo sveiflukennd. Þannig hafi til að mynda Ragnar Smára verið einn í útgáfunni með prentsmiðju og einn starfsmann sér til aðstoðar og rak þó umfangsmikla bókaútgáfu.
„Það er oft talað um það að við séum bókaþjóð, sem er svolítið rangnefni því við erum það ekki, lesum ekki það mikið. Það tíðkast hér ekki alvöru lestur eins og maður kynnist í útlöndum, þar sem meira er um að ungt fólk sé að lesa alvarlegar bókmenntir. Það er minna um allt svoleiðis hér, en jólabókaflóðið gerir okkur að bókaþjóð útaf þessari gjafahefð og er því stórkostlegt fyrirbæri fyrir bókaútgáfu í landinu.“
Jakob hefur verið duglegur að gefa út þýðingar og þá oft þýðingar á mörgum merkisverkum heimsbókmenntanna í bland við glæpa- og ástarsögur. Hann segir að glæpasögur og ástarsögur hafi í raun staðið undir því að hann hafi getað gefið út þær fjölmörgu merkisþýðingar sem komið hafa frá Uglu á undanförnum árum.
„Það hefur í raun alltaf verið þannig. Ég man eftir viðtali við Ragnar í Smára þar sem hann sagði að 70% af bókum sem kæmu út væru gefnar út með tapi. Þetta er tiltölulega einfalt reikningsdæmi: fyrir 30-40 árum var talað um að það þyrfti 700 eintaka sölu til þess að bók bæri sig og það þarf enn að minnsta kosti 700 eintök til að bók standi undir sér. Mjög margar bækur seljast ekki nema í 100 til 200 eintökum, að ekki sé talað um heimsbókmenntir sem seljast jafnvel minna.“