Bílstjóri ráðherra snuðaður um orlof á yfirvinnu

Bílstjórar ráðherra eru með mánaðarlaun og fasta yfirvinnu, sem er …
Bílstjórar ráðherra eru með mánaðarlaun og fasta yfirvinnu, sem er umtalsverður hluti af launum þeirra, enda getur vinnudagurinn náð nokkuð langt fram eftir. Árið 2018 hætti Umbra að greiða orlof ofan á yfirvinnuna sem bílstjórinn sætti sig ekki við. Mynd úr safni af tveimur af ráðherrabílum fyrir utan Ráðherrabústaðinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða karlmanni, sem starfar sem bílstjóri ráðherra, rúmlega eina milljón eftir að hafa snuðað hann um upphæðina í formi orlofs ofan á fasta yfirvinnu sem hann fékk greitt fyrir.

Maðurinn starfar hjá Umbra – þjónustumiðstöðu Stjórnarráðsins og hóf störf á seinni hluta ársins 2021. Um mitt ár 2022 komst hann að því að mismunandi var hvort að bílstjórar fengju greitt orlofsfé ofan á yfirvinnu og þá væri einnig nokkuð misræmi í fjölda yfirvinnustunda sem skilaði sér í mismun á orlofsfé.

Vísaði maðurinn til þess að í kjarasamningi Félags starfsmanna stjórnarráðsins væri gert ráð fyrir 13,04% orlofsfé á yfirvinnu. Óskaði maðurinn eftir því við framkvæmdastjóra Umbru að hann fengi orlof ofan á yfirvinnu þar sem ekki væri heimilt að semja um lakari kjör en kjarasamningur kvæði á um.

Maðurinn fékk þau svör að frá árinu 2018 hefði verið hætt að greiða orlof á fasta yfirvinnu. Í kjölfarið fékk maðurinn stéttarfélagið til að senda kröfu á Umbru og síðar gerði lögmaður mannsins þá kröfu, en því var ætíð hafnað.

Um var að ræða orlofsfé á yfirvinnulaun yfir 22 mánuði, samtals um 40-50 þúsund í hverjum mánuði, samtals 1.041.113 krónur.

Ríkið sagði í málsvörn sinni að skýrt væri hver launa- og starfskjör mannsins væru í ráðningarsamningi og það væri í samræmi við kjarasamning. Þá hefði hann í lengri tíma ekki hreyft andmælum né haft uppi athugasemdir vegna launaútborgana og því hefði hann fyrirgert rétti sínum vegna tómlætis.

Dómurinn vísaði bæði til dreifibréfs fjármálaráðuneytisins frá 2006 um fyrirkomulag orlofsgreiðsla og dóm Hæstaréttar frá sama ári um að orlofslaun skuli reiknuð af heildarlaunum.

Segir í niðurstöðu dómsins að þó að fyrir liggi að ekki hafi verið samið sérstaklega við manninn um að orlofsfé yrði greitt af yfirvinnu, þá sé með vísun í fyrrnefndan dóm og dreifibréf viðurkennt að ríkið beri hallann af ágreiningnum og er fallist á að ríkið hafi átt að greiða orlof á yfirvinnulaun hans.

Þá fellst dómurinn ekki heldur á tómlæti og bent er á að hann hafi sent bréfið um 8 mánuðum eftir að hann hóf störf og eftir neitun hafi stéttarfélagið og síðar lögmaður hans sent ítrekanir.

Er ríkið því dæmt til að greiða manninum milljónina, auk vaxta. Er ríkinu jafnframt gert að greiða 800 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert