Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur góðan grun um hvað olli því að bílstjóri ákvað að aka rútu á móti umferð á Reykjanesbraut á þriðjudag.
Þetta segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Spurður hvort að rannsókn sé hafin segir Sævar svo vera en að ekki sé um flókna rannsókn að ræða. Það sé enginn skortur á myndefni af atvikinu.
„Það eina sem á eftir að gera er að taka formlega skýrslu af manninum. Það er reyndar búið að tala við hann en formleg skýrslutaka hefur ekki farið fram, það verður bara gert á næstu dögum.
Eins og mbl.is greindi fyrst frá þá var rútan í umsjón bifreiðaverkstæðisins Vélrás þegar atvikið átti sér stað.
Hann segir lögregluna hafa góðan grun um það hvað hvað olli því að maðurinn ók rútuna á móti umferð og gerir ráð fyrir því að málið endi með sekt.
„Þetta er bara umferðarlagabrot og verður rannsakað sem hvert annað umferðarlagabrot og það eru náttúrulega til upptökur sem fylgja málinu. Maðurinn fær væntanlega einhverja sekt, en það er ekki mitt að ákveða um það - það er bara ákærusvið embættisins sem fær málið til lokaafgreiðslu.