„Engin áföll hindrað starfið í dag“

Ástráður ræðir við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu í dag.
Ástráður ræðir við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er fundað stíft í Karphúsinu í dag en kjaraviðræður breiðfylkingar stéttafélaga og Samtaka atvinnulífsins voru teknar upp að nýju í morgun. Líklega mun fundurinn standa yfir eitthvað fram eftir degi og stefnt er því að samningsaðilar fundi aftur á morgun að sögn Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara.

Klukkan 9 hófst fundur breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins og eftir hádegi var fundur samninganefndar Eflingar með SA.

„Fundir halda áfram og við erum bara að vinna eftir skipulagi. Það eru fundir í einstökum vinnuhópum sem fjalla um einstök kjaraatriði og það er misjafnt hverjir eiga aðild að þeim umræðum hverju sinni,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari við mbl.is.

Er að síga aftur í gang

„Það verður fundað eitthvað fram eftir degi og ef guð lofar þá höldum við áfram á morgun,“ segir Ástráður.

Er kominn góður gangur í viðræðurnar?

„Ég myndi segja að þetta sé að síga aftur í gang. Það hafa ekki nein áföll hindrað starfið í dag og þá stefnir þetta um skeið að minnsta kosti í rétta átt.“

Samninganefnd Eflingar fundaði með Samtökum atvinnulífsins eftir hádegi í dag.
Samninganefnd Eflingar fundaði með Samtökum atvinnulífsins eftir hádegi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert