Fimmtán jarðskjálftar hafa orðið í kvikuganginum við Svartsengi frá miðnætti.
Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, voru þeir allir litlir.
Hann segir nóttina hafa verið rólega á svæðinu en bætir við að Veðurstofan fylgist áfram grannt með gangi mála.
Um 8,5 til 9 milljónir rúmmetrar af kviku höfðu í gær safnast undir Svartsengi, samkvæmt líkanreikningum. Í fyrri eldsumbrotum á Reykjanesskaganum hefur gos brotist út þegar kvikumagnið hefur náð 8 til 13 milljónum rúmmetra.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, spáði í því í samtali við mbl.is á miðvikudag að það myndi gjósa í dag.