Lögmaður Péturs Jökuls Jónassonar segir umbjóðanda sinn hafa tilkynnt lögreglu að hann hygðist koma til Íslands samdægurs og að hann væri eftirlýstur á vefsíðu Interpol.
„Hann gaf sig fram við mig og ég svo við lögreglu sama dag og eftirlýsingin kom fram hjá Interpol,“ segir Snorri Sturluson, lögmaður Péturs.
Hann segir að Pétur Jökull hafi ferðast á eigin kostnað til landsins. „Hann var í fullu samstarfi við lögreglu með þetta,“ segir Snorri.
Samkvæmt heimildum mbl.is dvaldi Pétur Jökull á Taílandi og flaug þaðan til Íslands. Hvorki Snorri né lögregla vildu staðfesta að svo hafi verið.
Pétur Jökull var eftirlýstur hjá Interpol í tengslum við innflutning í stóra kókaínmálinu svokallaða. Leikur grunur á að hann eigi aðild að tæplega 100 kílógramma innflutningi á kókaíni frá Brasilíu til Íslands.
Nokkra athygli vakti þegar lýst var eftir Pétri hjá Interpol um miðjan febrúarmánuð. Hann var handtekinn við komu til Íslands á þriðjudag.
Í yfirlýsingu frá lögreglu segir að Pétur Jökull hafi verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.