„Hlægilegt en líka grafalvarlegt“

Tólf árum eftir að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans framkvæmdi húsleit í starfsstöðvum Samherja klóra lögmenn sér enn í hausnum hvernig sú stofnun fékk samþykki dómara við Héraðsdóm fyrir aðgerðinni. Björn Jón Bragason, sagnfræðingur sem sent hefur frá sér bókina Seðlabankinn gegn Samherja – Eftirlit eða eftirför? segir að engar skýrar lagaheimildir séu til fyrir Seðlabankann að fara í slíka aðgerð. Hann er gestur Dagmála Morgunblaðsins og mbl.is í dag, þar sem hann ræðir um bókina.

Hann segir jafnframt að um hafi verið að ræða dæmigerða „veiðiferð“ en svo kallast aðgerð þegar gögn eru nýtt eftir á, án þess að þeirra hafi sérstaklega verið leitað. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að slíkar „veiðiferðir“ væru óheimilar. Þegar veitt var leyfi fyrir húsleitinni af dómara náði hún að endingu yfir um þrjátíu félög. Sum þeirra tengdust Samherja ekki á nokkurn hátt og segir Björn Jón að líkast til hafi leitarvélin Google verið notuð til að ná yfir öll fyrirtæki sem hétu Katla. Þar á meðal voru tvö bresk fyrirtæki sem áttu ekkert skylt við Samherja. Einnig var að finna á listanum sem dómari samþykkti, pólska skipasmíðastöð sem var gjaldþrota.

Björn segir að þetta sé hlægilegt en um leið grafalvarlegt að ekki sé betur búið um hnútana en þarna gerðist. Hann segir stjórnvöld verða að afmarka með skýrum hætti hvaða gögn á að taka. Það sé eitt af grundvallaratriðum réttarkerfisins. Ekki var hlustað á mótbárur lögmanna Samherja vegna húsleitarinnar. 

Í viðtalsbrotinu sem fylgir fréttinni ræðir Björn Jón þennan þátt málsins. Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert