Stjórn Landspítalans telur að kostnaðareftirlit með uppbyggingu nýs Landspítala hafi brugðist. Enn fremur segist hún hafa þungar áhyggjur af því uppbygging spítalans frestist óhóflega.
Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Landspítalans.
Uppbygging nýs Landspítala hefur farið fram hjá fáum en þetta er ein dýrasta framkvæmd Íslandssögunnar.
Á fundi stjórnar Landspítalans frá janúarlokum voru tvær bókanir lagðar fram um stöðu verkefnis nýs Landspítala.
Í fyrri bókun segir að stjórnin ætti að hafa frekari aðkomu að uppbyggingu spítalans.
„Stjórn telur kostnaðareftirlit með framkvæmdinni hafa brugðist sem og að fagþekkingu af rekstri og uppbyggingu sjúkrahúsa hafi skort innan verkefnisins,“ segir meðal annars í bókuninni.
Í seinni bókuninni undir sama lið segir að stjórnin telji þörf á því að spítalinn og stjórnin hafi fullan aðgang að gögnum er varðar þróun uppbyggingar nýs Landspítala.
„Stjórnin telur stjórnskipulag verkefnisins ekki til þess fallið að tryggja að sjónarmið spítalans séu ætíð höfð að leiðarljósi við uppbygginguna og þannig sjónarmið framtíðarsjúklinga spítalans. Þá hefur stjórnin þungar áhyggjur af því að verkefnið frestist óhóflega.“