Langt frá því að mæta þörfinni á Akureyri

Húsnæðisáætlun Akureyrar gerir nú ráð fyrir því að íbúar sveitarfélagsins …
Húsnæðisáætlun Akureyrar gerir nú ráð fyrir því að íbúar sveitarfélagsins verði tæplega 23 þúsund árið 2033, en það eykur íbúðaþörf um tæplega 2 þúsund á næstu 10 árum. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjöldi íbúða í byggingu á Akureyri er langt frá því að mæta áætlaðri íbúðaþörf sem bæinn hefur sett fram. Á síðasta ári kom ekki nema rúmlega einn þriðji hluti þess fjölda fullkláraðra íbúða á markað og þörf er fyrir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skoðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á stöðu íbúðauppbyggingar í sveitarfélaginu.

Húsnæðisáætlun Akureyrar gerir nú ráð fyrir því að íbúar sveitarfélagsins verði tæplega 23 þúsund árið 2033, en það eykur íbúðaþörf um tæplega 2 þúsund á næstu 10 árum. Frá árinu 2021 hefur íbúafjöldi á Akureyri aukist um 3,5%, en miðað við spá um mannfjöldaþróun er áætlað að íbúum muni fjölga um 11,6% næsta áratuginn.

Þarf 195 íbúðir á ári

Miðað við þessa fjölgun er áætluð þörf fyrir um 195 íbúðir á ári, samtals 975 íbúðir á næstu 5 árum og 1.951 íbúðir á næstu 10 árum.

HMS taldi íbúðir í byggingu í september 2022 og reyndust þær vera 285 talsins. Aftur var talið í september í fyrra og voru þá 271 íbúð í byggingu, eða um 5% samdráttur milli ára. Þar sem uppbygging íbúða tekur að jafnaði tvö ár en fjöldi íbúða í byggingu því langt frá því að mæta áætlaðri íbúðaþörf.

Aðeins 75 íbúðir komu á markað í fyrra

Bendir HMS á að í fyrra hafi alls ekki nema 75 fullbúnar íbúðir komið á markað í sveitarfélaginu, en það er rúmlega þriðjungur þess fjölda sem áætlað er að þurfi til að mæta mannfjölgun.

Í talningu HMS frá í september kemur einnig í ljós að 265 íbúðir af þeim 271 sem eru í byggingu hafi verið á byggingarstigi 3 og 4 og því í mesta lagi fokheldar.

Samtals hefur Akureyrarbær skipulagt lóðir fyrir 3.080 íbúðir, en á næstu fimm árum stefnir sveitarfélagið á að skapa skilyrði til að úthluta byggingarhæfum lóðum fyrir allt að 1.790 íbúðir svo lóðaframboð mæti vel áætlaðri íbúðaþörf.

Nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar á Akureyri gerir ráð fyrir tæplega …
Nýtt íbúðasvæði vestan Borgarbrautar á Akureyri gerir ráð fyrir tæplega 1.000 íbúðum.

Eins og mbl.is greindi frá fyrir rúmlega tveimur árum gerir Akureyri meðal annars ráð fyrir að nýtt hverfi vestan Borgarbrautar verði með allt að 970 íbúðir fyrir 1.900-2.300 íbúa. Var þá áætlað að það tæki 3-6 ár að byggja hverfið upp og hefði því átt að geta mætt stórum hluta af þörfinni næstu fimm árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert