Hveragerðisbær og Reykjadalsfélagið hafa skrifað undir samning um uppbyggingu ferðaþjónustu á Árhólmasvæðinu í Hveragerði. Felur samningurinn í sér kaup félagsins á byggingarrétti og úthlutun lóða ásamt uppbyggingu svæðisins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjadalsfélaginu og Hveragerðisbæ.
Uppbyggingin er umfangsmikil og er skipt upp í nokkra áfanga. Þannig verður fyrsti áfangi náttúruböð sem hafa fengið nafnið Reykjaböðin.
The Greenhouse Hotel mun svo starfrækja hótel á svæðinu og bjóða upp á öðruvísi hótel upplifun þar sem gestir geta dvalið í smáhýsum og kofum. Þá verður einnig byggð upp frekari veitingastarfsemi.
„Markmið uppbyggingar Árhólmasvæðisins er að skapa fjölbreytta þjónustu fyrir bæði íbúa bæjarins og nágrennis en einnig þá fjölmörgu ferðamenn sem heimsækja svæðið og er stefnt að heildrænni nálgun með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.
Reykjadalsfélagið er fyrir með starfsemi á Árhólmasvæðinu en á árinu 2021 opnaði Reykjadalsskálinn, sem þjónustar veitingar, verslun og salerni ásamt upplýsingagjöf. Í tilkynningunni kemur fram að einhugur hafi verið í bæjarstjórn um samninginn og áframhaldandi uppbyggingu Reykjadalsfélagsins í bænum.