Óverulegt tjón á eignum fjær sprungum

Umfang skemmda á íbúðar- og atvinnueignum í Grindavík þar sem tjón hefur verið tilkynnt er almennt óverulegt á þeim svæðum sem eru fjær þeim sprungum og misgengjum sem hafa komið fram í bænum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Náttúruhamfaratrygginga Íslands, NTÍ, en lokið hefur verið við að skoða og meta skemmdir á flestum eignunum.

Unnið er að kostnaðarmati og gerð matsgerða. Reiknað er með að fyrstu matsgerðir vegna minna skemmdra húseigna verði sendar eigendum til kynningar í lok næstu viku.

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls hafa tæplega þrjátíu matsmenn frá fjórum verkfræðistofum sinnt tjónamati fyrir NTÍ, auk þriggja sjálfstæðra og sérhæfðra matsmanna.

Kom á óvart

„Miðað við þær miklu jarðhræringar sem orðið hafa í Grindavík síðustu mánuði hefur það komið okkur töluvert á óvart hversu lítið tjón er almennt á eignum í bænum að undanskildum þeim sem standa næst sprungum og misgengjum. Flestar eignir utan við sprungusvæði og misgengi eru tiltölulega lítið skemmdar. Þó höfum við séð að hús sem deila lóðamörkum geta verið nánast óskemmd á annarri lóðinni en altjón á hinni,” segir Auðunn Elísson, verkefnastjóri tjónamats hjá Verkís, í tilkynningunni.

Jón Örvar Bjarnason, sviðsstjóri vátryggingasviðs NTÍ, segir að matsmenn muni fara aftur í tjónaskoðun á eignunum sem standa á eða við sprungur og telja má líklegt að tjón hafi aukist á, frá því skoðun fór fram fyrir áramót.

Komi í ljós að tjón hafi aukist verða matsgerðir uppfærðar áður en þær verðar sendar eigendum til kynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert