Sala rafbíla dróst saman um 79,3% á milli ára ef borið er saman febrúar í ár við sama tíma í fyrra. Sala nýrra fólksbíla dróst almennt verulega saman eða alls um 57,5%.
Alls voru skráðir 397 nýir fólksbílar nú í febrúar en voru 935 í sama mánuði í fyrra.
Þetta kemur fram í tilkynningu Bílgreinasambandsins.
Eins og hefur verið greint frá þá dróst saman sala rafbíla um 50% á milli ára í janúar samanborið við sama tímabil árið 2023.
Fram kemur að hlutfall rafbíla er hæst þegar skoðað er heildarsölu eftir orkugjöfum það sem af er ári, eða 31,1%. Tengiltvinn kemur þar á eftir með 21,8% af sölunni, hybrid 19,6%, dísel 19,4% og bensín 8,0% sem hlutfall sölunnar.
Hvað varðar breytingu orkugjafa milli ára er samdráttur í öllum orkugjöfum, mest þó í rafbílum og bensínbílum sem báðir eru yfir 60% samdrátt. Minnsti samdrátturinn er í sölu díselbíla, eða um 33,6%
„Ef við horfum á sölu það sem af er ári er samdráttur upp á 48,8% milli ára. Seldir hafa verið 854 nýir fólksbílar en miðað við sama tímabil í fyrra seldust 1.668 nýir fólksbílar fyrstu tvo mánuði ársins,“ segir í tilkynningunni.
Toyota er með um 20,5% markaðshlutdeild og þar á eftir kemur Dacia Duster, sem er vinsæll kostur ferðamanna, og Land Rover. Dacia Duster og Land Rover eru hvor um sig með um 8% markaðshlutdeild.
Leiðrétting: Í fyrri útgáfu þessarar fréttar sagði í inngangssetningu að sala rafbíla hefði dregist saman um 60% á umræddu tímabili en raunin er 79,3% samdráttur.