Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknar í Fjarðarbyggð, segir að það Framsókn muni funda með lista Sjálfstæðisflokksins eftir hádegi um mögulega myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.
„Það er auðvitað skylda okkar sem í bæjarstjórn erum að það sé starfhæfur meirihluti. Nú setjumst við niður og ræðum það og sjáum hvernig gengur í dag,“ segir Jón í samtali við mbl.is.
Ertu bjartsýnn á að það komi fram niðurstaða á fundinum með Sjálfstæðismönnum í dag?
„Ég vona bara að menn mæti bara opnir til þess að ræða þá möguleika sem eru fyrir og treysti því,“ segir Jón.
Í gær sleit Framsókn meirihlutasamstarfi sínu við Fjarðalistann vegna trúnaðarbrests á fundi bæjarstjórnar þann 27. febrúar.
Á bæjarstjórnarfundinum þar sem trúnaðarbresturinn átti sér stað var lögð fram tillaga um breytingar stjórnkerfi fræðslumála í Fjarðabyggð.
Bæjarfulltrúi Fjarðarlistans studdi tillöguna ekki sem kom Jóni á óvart. Hann segir mikilvægt að í meirihlutasamstarfi að menn útkljái mál sín á milli og að traust ríki á milli samstarfsflokka.
Lá aldrei fyrir að bæjarfulltrúinn myndi ekki greiða atkvæði með þessu?
„Nei það lá ekki fyrir hjá mér að það yrði greitt atkvæði gegn þessu. Að sjálfsögðu í vinnu, sem er svona umfangsmikil og verið að vinna með svona málefni, er eðlilegt að það komi upp umræða og gagnrýni. Menn verða að taka tillit til þess og ná saman um slíkt, sérstaklega þegar þetta er svona þverpólitískt. En ekki að þetta yrði niðurstaðan á þessum fundi, nei,“ svarar Jón.