VG muni rísa upp eins og Þorvaldur

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði samflokksmenn sína á flokksráðsfundi VG fyrr …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði samflokksmenn sína á flokksráðsfundi VG fyrr í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að lífsnauðsynleg fyrirtæki tengd innviðum eigi að vera í almannaeigu. 

Þetta kom fram í ræðu Katrínar á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingar- græns framboðs fyrr í dag, þar sem hún stiklaði á stóru um mikilvægi ríkisvaldsins sérstaklega í ljósi áskoranna síðustu ára. Þá ræddi hún einnig kjaramál og öryggismál.

Staðan gæti bara batnað

Katrín sló á létta strengi er hún snerti á fylgistapi flokksins en samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsinum er fylgi VG komið í 4,7%. Myndi flokkurinn ekki ná manni á þing ef gengið yrði til kosninga í dag samkvæmt þessum niðurstöðum. 

Katrín sagði að staðan gæti „bara batnað“ og vísaði til Þorvalds Örlygssonar í kjöri til formanns KSÍ. Sagði hún að flokkurinn myndi „rísa upp“ eins og hann gerði.

Þá sagði hún flokkinn þurfa að taka samtal um hvaða skilboð hann vilji koma á framfæri.

Katrín lýsti yfir áhyggjum sínum af börnum innflytjenda og félagslegri stöðu þeirra. Hún sagði að hlúa þyrfti að börnunum til þess að tryggja þeim tækifæri til jafns við önnur börn. Þá lýsti hún yfir áhyggjum af aukinni stéttskiptingu í því samhengi.

Einblínir á barnafólk og fólk á leigumarkaði

Katrín vonaðist eftir sátt í samningaviðræðum í Karphúsinu og sagði það lykilatriði að ná langtímasamningum.

Hún sagðist vera að beita sér fyrir aðgerðum í kjaramálum og að þátttaka ríkisvaldsins í samningaviðræðunum einblíni á stuðning við barnafólk í landinu og fólk á leigumarkaði.

„Í þessu máli skiptir máli að hafa pólitíska sýn og við viljum tryggja aukna velsæld,“ sagði hún.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra hélt tölu á fundinum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra hélt tölu á fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Vega arðgreiðslur meir en öruggir innviðir?

Katrín varpaði þeirri spurningu fram hvort að rétt væri að fyrirtæki sem sjái um mikilvæga innviði í landinu væru í einkaeigu og þá einnig í eign erlendra aðila.

„Hvað telur meir í þeirra huga? Arðgreiðslur eða að tryggja örugga innviði,“ spurði hún og sagði í því samhengi að réttast væri að fyrirtæki sem sæju fyrir mikilvægum innviðum væru í almannaeigu.

Þá kallaði hún eftir innlendri greiðslumiðlun og sagði málið ekki einungis snúa um kjör landsmanna heldur væri það einnig þjóðaröryggismál.

Flokksráðsfundur VG í Fosshótel
Flokksráðsfundur VG í Fosshótel mbl.is/Árni Sæberg
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert