Fasteignareiganda var í gær gert að fjarlægja sólpall í garði fasteignar sinnar í Fossvogi að viðlögðum dagsektum til nágranna síns. Stendur hann á sameign nágrannanna en stefndi hafði einn pallinn til afnota, að því er fram kemur í dómi Landsréttar.
Byggt var meðal annars á því að sólpallurinn hafi rýrt verðmæti fasteignarinnar og skaðað hagsmuni nágrannans á grundvelli ólögfestra reglna nábýlisréttar.
Veröndin var byggð árið 2008 og stóð á sameign nágrannanna. Var hún smíðuð áður en stefndi festi kaup á neðri hæð hússins en nágranni hans byggði á því að framkvæmdin hefði ekki notið samþykkis eiganda efri hæðarinnar.
Í dómi héraðsdóms sem var staðfestur að mestu leyti í Landsrétti kom fram að stefndi bæri sönnunarbyrði fyrir því að samþykki hefði verið fyrir hendi. Ekkert var talið styðja þá ályktun að nágranni hans eða eiginmaður hennar sem átti íbúðina þegar veröndin var smíðuð, hefðu veitt samþykki fyrir framkvæmdinni.
Var manninum gert að fjarlægja sólpallinn að viðlögðum dagsektum til nágranna síns eins og áður sagði, sem hljóða upp á 50 þúsund krónur á dag.