Enginn verktaki við varnargarða og vélar færðar

Víðir segir atburðinn ekki búinn.
Víðir segir atburðinn ekki búinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dregið hefur úr skjálftavirkni við Sundhnúkagígaröðina og er óvíst hvort atburðarásin sem hófst fyrr í dag endi með eldgosi.

Búið er að rýma Svartsengi og Grindavík, og er enginn verktaki að störfum við varnargarðana. Þá hafa vinnuvélar á svæðinu verið færðar.

Þetta segir Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra.

Gist í tíu húsum

Aðspurður kveðst Víðir ekki vera með tölu yfir fjölda fólks á svæðinu þegar rýmingin hófst en að gist hefði verið í tíu húsum í Grindavík í nótt.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, rekstrar- og þjónustu hjá Bláa lóninu, sagði að um 600 til 800 manns hefðu verið á starfsstöðvum fyrirtækisins í Svartsengi þegar rýmingarboð barst.

Víðir segir að búið sé að virkja allt stjórnkerfi almannavarna, manna alla lokunarpósta og þyrla landhelgisgæslunnar sé í viðbragðsstöðu.

Ólíklegt að rýmingu verði aflétt fyrir nóttina

Kvika virðist ekki vera að brjóta sér leið upp á yfirborðið í augnablikinu og hefur jafnframt dregið úr jarðskjálftavirkninni.

Víði þykir þó ólíklegt að rýmingu verði aflétt í Grindavík fyrir nóttina. „Þessi atburður er ekki búinn.“

Þá á hann ekki von á því að upplýsingafundur verði boðaður í dag en það gæti þó breyst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert