„Við erum búin að meta stöðuna síðustu tvö ár og því miður gekk þetta ekki upp. Þetta var erfið ákvörðun en við getum ekki rekið búðina eingöngu af hugsjón,“ segir Sólveig Grétarsdóttir, eigandi Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar.
Eigendur verslunarinnar hafa ákveðið að loka við Laugaveg 34 og einbeita sér að rekstri verslunar í Ármúla 11. Þar með lýkur langri og farsælli sögu við Laugaveginn. Verslun Guðsteins var opnuð árið 1918 og flutti í núverandi húsnæði árið 1928. Hefur hún alla tíð verið ákveðið kennileiti og fastur viðkomustaður margra sem kjósa sígild herraföt.
Sólveig kom inn í rekstur fyrirtækisins árið 2016 og árið 2019 ákváðu hún og maður hennar, Hörður Harðarson, að kaupa það. Hún segir að smám saman hafi komið í ljós að stefna borgaryfirvalda um að breyta gömlu verslunargötunni í göngugötu hentaði ekki kúnnahópi Verslunar Guðsteins.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.