Kvikuinnskot virðist yfirstaðið: Nýr gangur myndast

Séð yfir hraunin tvö sem runnu í eldgosunum við Sundhnúkagíga …
Séð yfir hraunin tvö sem runnu í eldgosunum við Sundhnúkagíga í desember og febrúar. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Kvikuinnskot virðist yfirstaðið og nýr kvikugangur hefur myndast á milli Sýlingarfells og Hagafells.

Þetta segir Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Það hefur í raun og veru ekki verið nein viðvarandi skjálftavirkni frá því svona korter yfir fimm,“ segir Benedikt. Skjálftavirknin frá klukkan 16 til 17 var mjög lýsandi fyrir kvikuhlaup, að mati jarðskjálftaverkfræðingsins.

Skjálfta­hrin­a við Sund­hnúkagígaröðina hófst á suðurenda gossprung­unn­ar þar sem gaus 18. des­em­ber. Í upphafi var virknin mest austan við Sýlingarfell en færðist síðan suður að Hagafelli.

Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofunni og rannsóknarprófessor við Háskóla …
Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofunni og rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðfesta kvikuhlaup neðanjarðar

„Aflögunarmælingar hafa staðfest að aflögun varð á yfirborðinu vegna kvikuhlaups neðanjarðar en bæði aflögun og skjálftar virða hafa hægt mjög mikið á sér,“ segir Benedikt.

Er þetta þá yfirstaðið, eins og þetta lítur út núna?

„Já. Það má segja það miðað við þau mæligögn sem við höfum en í rauninni þurfum við einhverja klukkutíma í viðbót til þess að staðfesta það til skemmri tíma og nokkra daga til að staðfesta það til lengri tíma.“

Rannsaka nýja kvikuganginn 

Benedikt segir enn fremur að Veðurstofan ætli næst að keyra líkön af kvikugangi til þess að meta hversu mikil kvika hljóp úr Svartsengi í kvikuganginn sem myndaðist núna.

„Þannig getum við talað um hvernig útlitið er til langs tíma,“ segir Benedikt og útskýrir að gangurinn virðist ná frá Sýlingarfelli að Hagafelli og liggur eftir stóra kvikuganginum sem myndaðist 10. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert