Ólafur E. Jóhannsson
„Samtökin Solaris hafa hvorki sótt um leyfi fyrir opinberri fjársöfnun né tilkynnt um opinbera fjársöfnun til embættisins,“ segir í skriflegu svari sýslumannsembættisins á Suðurlandi við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Embætti sýslumannsins á Suðurlandi veitir leyfi fyrir opinberum fjársöfnunum samkvæmt reglugerð þar um, en slíkar safnanir eru skilgreindar þannig í reglugerðinni að þær séu starfsemi þar sem almenningur er hvattur til að láta fé af hendi rakna í þágu ákveðins málefnis, án þess að endurgjald komi í staðinn.
Samtökin Solaris hafa að undanförnu staðið fyrir fjársöfnun til stuðnings verkefnum á Gasasvæðinu og hefur verið greint frá því að tugir milljóna hafi safnast í þeim tilgangi.
Í lögum um opinberar fjársafnanir segir að þær séu háðar leyfi sýslumanns fari söfnun fram á götum eða í húsum. Einnig segir að tilkynna skuli sýslumanni um opinbera söfnun áður en hún hefst. Hvorugt skilyrðið hefur verið uppfyllt, skv. svari sýslumanns, og uppfyllir söfnunin þ.a.l. ekki skilyrði laganna.
Þá segir í lögunum að gangist samtök fyrir fjársöfnun skuli minnst þrír menn bera ábyrgð á söfnuninni hverju sinni og skilyrt er að a.m.k. tveir þeirra séu fjárráða íslenskir ríkisborgarar sem lögheimili eigi hér á landi. Ljóst er af svörum sýslumanns að það skilyrði hefur ekki verið uppfyllt.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.