„Mjög líklegt á næstu mínútum eða klukkutímum“

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að …
Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagsstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, segir að goss sé líklega að vænta á næstu mínútum. Samsett mynd

Þrýstingsbreytingar í borholukerfum HS Orku benda til þess að kvikuhlaup sé hafið. Skjálftavirkni er nú mest suðaustan Sýlingarfells en virknin gæti færst.

„Það [eldgos] er mjög líklegt á næstu mínútum eða klukkutímum. Það er alla vegana kvika á ferðinni,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Þrýstingsbreytingar í borholukerfum HS Orku

Jarðskjálftavirkni jókst skyndilega við Sundhnúkagíga upp úr kl. 16 í dag. Stærsti skjálfti sem hefur mælst þar á síðustu klukkustundum er 2,4 að stærð.

Jarðskjálftahrinan heldur áfram en upp úr kl. 16.30 sáust þrýstingsbreytingar í borholum HS Orku í Svartsengi, að sögn Benedikts. Breytingarnar séu merki um að kvika sé „á ferðinni“.

Rým­ing hef­ur verið boðuð um­hverf­is Grinda­vík og Bláa lóninu.

Skýr merki um að kvikuinnskot sé í gangi

„Við erum ekki að sjá mikla aflögun enn þá en það eru skýr merki um að kvikuinnskot sé í gangi,“ segir hann.

Mesta skjálftavirknin eru suðaustan við Sýlingarfell og eldgos því líklegast þar eins og staðan er núna.

„En hún [virknin] getur færst til. Þetta eru merki um að kvika sé að reyna að troða sér eitthvert og við vitum ekkert hversu langt hún fer áður en hún kemst upp á yfirborðið, eða yfir höfuð kemst upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert