Ólíklegt að það dragi til tíðinda í nótt

Hraun úr eldgosinu sem braust út 8. febrúar.
Hraun úr eldgosinu sem braust út 8. febrúar. mbl.is/Árni Sæberg

Aðeins um 10 skjálftar hafa mælst við Sund­hnúkagígaröðina síðustu klukkustundina en dregið hefur jafnt og þétt úr skjálftavirkninni frá því að kvikuhlaup náði hámarki í dag.

Til sam­an­b­urðar mæld­ust um 130 skjálft­ar á milli klukk­an 16 og 17 í dag þegar skjálftahrinan stóð sem hæst.

Þetta segir Salóme Jór­unn Bern­h­arðsdótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is. Hún telur ólíklegt að það dragi til tíðinda í nótt en útilokar það ekki.

Skjálfta­hrin­a hófst við Sund­hnúkagígaröðina um klukkan 16 í dag, á suðurenda gossprung­unn­ar þar sem gaus 18. des­em­ber. Í upp­hafi var virkn­in mest aust­an við Sýl­ing­ar­fell en færðist síðan suður að Haga­felli.

Má ekki gera ráð fyrir að atburðinum sé lokið

„Það er eiginlega tvennt í þessu, annars vegar gæti verið að kvika nái yfirborði mjög hljóðlega, svolítið eins og gerðist í Fagradalsfjalli […]. Það þýðir þá að það sé bara smá kvika að koma inn í kvikuganginn, inn í innskotið, og nær síðan að mjaka sér upp á yfirborð,“ segir Salóme.

„Það gæti líka verið að það komi eitthvað áhlaup í kerfið, þannig að við viljum bíða með að lýsa því yfir að öll hætta sé úti. Það er líklegast að þetta endi með engu, úr þessu sem komið er,“ bætir náttúruvársérfræðingurinn við.

„En það má alls ekki gera ráð fyrir því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert