Almannavarnir eru í viðbragðsstöðu í samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð þar sem „öll augu eru límd við vefmyndavélarnar“, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa almannavarna.
„Hér er bara verið að bíða eftir að eldgos hefjist,“ segir Hjördís í samtali við mbl.is. Nú sé bara spurning um hvar kvikan komi nákvæmlega upp.
Eins og mbl.is hefur greint frá er eldgos talið yfirvofandi á Reykjanesskaga.
Fengu almannavarnir sms frá Veðurstofunni þegar jarðskjálftahrina hófst við Sundhnúkagígaröðina um klukkan 16 í dag. Er kvikuhlaup nú talið vera hafið.
Rýmingarboð voru send með sms skilaboðum í síma fólks í Grindavík og nágrenni en að sögn Hjördísar er rýmingu lokið. Fóru viðvörunarflautur í gang bæði í bænum og Svartsengi.