Skjálftahrina hófst við Kleifarvatn rétt fyrir hádegi í dag og hafa tæplega 100 smáskjálftar mælst þar. Hrinan er líklega vegna spennubreytinga á Reykjanesskaga.
„Þeir eru eru allir undir tveimur að stærð, flestir undir einum jafnvel,“ segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hildur útskýrir að skjálftahrinan sé að öllum líkindum viðbragð við spennubreytingum sem hafa orðið til sökum jarðhræringa á svæðinu. Skjálftarnir séu því sennilega gikkskjálftar.
Hegðun jarðhræringanna í kvikuganginum undir Grindavík hefur ekki breyst mikið. Frá miðnætti hafa aðeins nokkrir litlir skjálftar mælst á ganginum. „Frekar rólegt þar eins og er,“ segir Hildur.
Veðurstofan gerir ráð fyrir að um 9-10 milljónir rúmmetra af kviku hafi safnast í kvikuhólfinu undir Svartsengi, að sögn Hildar, sem bíður samt eftir því að frekari gögn berist í dag.
Eruð þið að búast við gosi um helgina?
„Það getur bara vel verið. Það eru bara miklar líkur á því að það verði gos núna um helgina eða á næstu dögum.“
Veðurstofan gaf það út í tilkynningu á fimmtudaginn að fyrirvari eldgoss gæti verið minni en 30 mínútur. Kæmi kvikan líklegast upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.
Segja skjálftarnir á Kleifarvatni okkur eitthvað um það sem við má búast á Reykjanesskaganum?
„Nei, þeir gera það í rauninni ekki. Það koma bara reglulega hrinur og enn meiri núna þegar allt er að gerast þarna á Reykjanesinu,“ svarar Hildur.
Jarðvísindafólk á Veðurstofunni hefur því ekki áhyggjur af jarðskjálftahrinunni.
„Við auðvitað fylgjumst með þessu en þetta er ekki eitthvað sem vekur einhvern óhug,“ segir Hildur að lokum.