Nóbelsverðlaunahafinn Joseph Stiglitz segir hryðjuverkastríðið hafa kostað Bandaríkjastjórn mun meira en hann áætlaði í umtalaðri bók kosningaárið 2008. Hann hefur ekki miklar áhyggjur af skuldastöðu Bandaríkjanna né heldur telur hann BRICS-ríkin ógna stöðu bandaríkjadals sem forðamyntar heimsins.
Stiglitz var gestur á málþingi menningar- og viðskiptaráðherra í fyrradag, en kona hans, Anya Schiffrin, var þar meðal ræðumanna. Stiglitz var svo aðalræðumaður á málþingi forsætisráðuneytisins og menningar- og viðskiptaráðuneytisins í gær.
Stiglitz er heimsþekktur hagfræðingur, en hann var meðal annars efnahagsráðgjafi Bill Clinton Bandaríkjaforseta og í kjölfarið yfirhagfræðingur Alþjóðabankans.
Rætt var við Stiglitz í Morgunblaðinu í mars 2008 í tilefni af því að hann hafði í byrjun þess árs gefið út bókina The Three Trillion Dollar War, eða Þriggja billjóna dollara stríðið, ásamt meðhöfundi sínum, Lindu Bilmes, kennara við Harvard-háskóla.
Umfjöllunarefnið var kostnaður Bandaríkjanna af stríðsrekstrinum í Afganistan og Írak í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin hinn 11. september 2001.
Þegar Morgunblaðið fjallaði um bókina Þriggja billjóna dollara stríðið fyrir 16 árum var umfjöllun um þennan kostnað rifjuð upp:
„Fyrir nokkrum árum svaraði Larry Lindsey, efnahagsráðgjafi Bush-stjórnarinnar, því aðspurður að kostnaðurinn við fyrirhugaðan stríðsrekstur í Írak yrði á milli 100 og 200 milljarðar Bandaríkjadala. Hann var rekinn skömmu síðar. Donald Rumsfeld, þáverandi varnarmálaráðherra, var fljótur til og leiðrétti rangfærsluna og gaf stjórnin út að kostnaðurinn yrði líklega á bilinu 50 og 60 milljarðar dala.
Annað hefur komið á daginn. Hinn raunverulegi kostnaður sem fallið hefur á Bandaríkin vegna stríðsrekstursins er miklu, miklu meiri og hleypur á um þremur billjónum dollara, þremur milljónum milljóna dala (3.000.000.000.000 dollarar).
Tekið skal fram að þessi niðurstaða er umdeild en höfundunum telst til að stríðið sé það dýrasta sem Bandaríkin hafi nokkru sinni tekið þátt í sé heildarupphæðinni deilt á hvern hermann, eða allt að því átta sinnum dýrara en síðari heimsstyrjöldin, sem var vitaskuld miklum mun umfangsmeira stríð og að nær öllu leyti ósambærilegt.“
Þegar bókin kom út leit út fyrir að hryðjuverkastríðið yrði ofarlega á blaði í forsetakosningunum 2008. Alþjóðlega fjármálakreppan sem hófst þá um haustið yfirskyggði hins vegar önnur mál og átti vafalítið þátt í því að Barack Obama hafði betur gegn John McCain í kosningunum.
Nú er annað kosningaár fram undan og enn tekist á um kostnað af stríðsrekstri. Nú gætir hins vegar óþols, ekki síst meðal marga repúblikana á þingi, vegna kostnaðarins af stuðningi við Úkraínu í stríðinu gegn Rússum. Donald J. Trump verður að óbreyttu forsetaefni repúblikana en hann gagnrýndi „stríð án enda“ í kosningabaráttunni 2016 og stærir sig af því að hafa ekki hafið stríð sem forseti. Á vakt Obama geisuðu hins vegar stríð í Líbíu og Sýrlandi og eru demókratar nú í því hlutverki að verja útgjöld til hernaðar.
Það hefur því mikið vatn runnið til sjávar síðan bókin Þriggja billjóna dollara stríðið kom út og lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Stiglitz teldi að þessi greining hans og Lindu J. Bilmes hefði staðist tímans tönn.
Ég hlustaði um daginn á Jeffrey Sachs [hagfræðing við Columbia-háskóla], sem vitnaði í þessa niðurstöðu ykkar og færði rök fyrir því að stríðsreksturinn hefði í raun kostað allt að níu billjónir. Hvað áætlarðu nú að stríðin hafi kostað?
„Mér var það ljóst jafnvel þegar ég skrifaði bókina að áætlun okkar væri mjög varfærin. Við sögðum í bókinni að kostnaðurinn væri þrjár til fimm billjónir dala. Við héldum hins vegar að talan fimm billjónir hljómaði of há, svo að við kölluðum bókina Þriggja billjón dollara stríðið. En þegar við vorum að leggja lokahönd á bókina voru að berast gögn sem bentu til þess að við hefðum verið gríðarlega varfærin. Til dæmis var kostnaðurinn einn og sér við að hlúa að bandarískum hermönnum sem höfðu særst um ein billjón dala. Það var árið 2010 og ég hef ekki uppfært töluna en það er alveg ljóst að talan níu billjónir er ekki ósennileg.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.