„Við erum á óvissustigi núna“

Horft til norðurs með Sundhnúkagígaröðinni og yfir svart hraunið í …
Horft til norðurs með Sundhnúkagígaröðinni og yfir svart hraunið í desember. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson/@h0rdur

„Þetta er komið á þann stað að eldgos gæti hafist hvenær sem er,“ segir Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um stöðu mála á Reykjanesskaga.

Veðurstofan gaf það út í tilkynningu á fimmtudaginn að eldgos gæti hafist með jafnvel innan við 30 mínútna fyrirvara, líkast til á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells.

Milli níu og tíu milljónir rúmmetra

„Við sjáum enga óvenjulega jarðskjálftavirkni núna í augnablikinu, það eru smáskjálftar þarna í kringum Sundhnúkagígaröðina,“ segir Hildur María og boðar gervitunglamynd síðar í dag sem muni greina kvikumagn undir Svartsengi. „Þá höfum við tölur um magn kviku sem hefur safnast, en það lítur út fyrir að það séu á milli níu og tíu milljónir rúmmetra núna,“ heldur hún áfram.

Síðast þegar gaus höfðu rétt rúmar tíu milljónir rúmmetra safnast fyrir er gos hófst, en að sögn Hildar Maríu meta hún og samstarfsfólk hennar stöðuna þannig að lægra bil til að gos hefjist sé átta milljónir rúmmetra af kviku en hærra bilið um þrettán milljónir þannig að nú ríki óvissustig.

„Jörðin er ófyrirsjáanleg, við erum á óvissustigi núna, gos gæti komið á hverri stundu eða eftir nokkra daga,“ segir Hildur María að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert