Borgarráð hefur samþykkt að skoðað verði hvort fýsilegt sé að byggja upp hringráðsargarð í Álfsnesi við Kollafjörð.
Raðgjafateymi fór ofan í saumana á málinu og verða tillögur teymisins til hliðsjónar í þeirri vinnu sem framundan er.
Markmið hringrásargarðs er að draga úr urðun og mengun með því að líta á muni og efni sem fellur til hjá íbúum og fyrirtækjum sem auðlindir.
„Auðlindastraumar á höfuðborgarsvæðinu og mögulegt iðnaðarvistkerfi er greint í samantekt ráðgjafanna; fyrstu grófu drög að skipulagi svæðisins teiknuð upp ásamt því að skýrslan sýnir möguleg rekstrarform og tillögur um verkáætlun, fjármögnun og fleira.
Niðurstaða skýrslunnar er sú að staðsetningin í Álfsnesi henti vel þar sem svæðið býr yfir góðum núverandi og framtíðar innviðum á borð við höfn og vegtengingum í margar áttir sem eru nú þegar í kortunum. Á svæðinu eru fjölbreyttir auðlindastraumar sem byggja má rekstur í kringum. Á svæðinu er t.a.m. núverandi urðunarstaður Sorpu ásamt gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA sem mun verða þungamiðja hringrásargarðsins,“ segir meðal annars á vef Reykjavíkurborgar.
Ráðgjafateymi sem vann fýsileikagreininguna er ReSource International, M/Studio og Transition Labs. Teymið var valið að loknu opnu útboði þar sem leitað var sérstaklega eftir teymum með fjölbreytta reynslu og þekkingu.
Auðlindagarður á þessum skala yrði mikilvæg stoð í því hringrásarhagkerfi, sem gert er ráð fyrir í Græna planinu, heildarstefnu Reykjavíkurborgar til 2030, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.