Brunaútkall í World Class og gamla Kató

Eldur kom upp í World Class í Smáralind og í …
Eldur kom upp í World Class í Smáralind og í gamla húsnæði Kató í Hafnarfirði í dag. mbl.is/Eyþór

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur haft í nógu að snúast í dag en auk erils í sjúkraflutningum var slökkvilið kallað út í Smáralind og að „gamla Kató“ í Hafnarfirði.

Að sögn Steinþórs Darra Þorsteinssonar aðstoðarvarðstjóra barst slökkviliðinu tilkynning um eldsvoða í infrarauðri saunu í líkamsræktarstöðinni World Class, en ekki var þörf á neinum aðgerðum af hálfu slökkviliðsins. 

„Það kom upp minniháttar eldur sem þeir slökktu sjálfir í World Class í Smáralind,“ segir Steinþór en bætir við að brugðist hafi verið við þessu engu að síður er tilkynningin barst.

Kveikt í rusli

Einnig hafi borist tilkynning um lítinn eld í yfirgefnum húsakynnum á móti Lífsgæðasetrinu, áður St. Jósefsspítali, í Hafnarfirði. 

Húsið sem um ræðir er þekkt sem Kató og hýsti áður leikskólastarfssemi kaþólsku nunnanna og íþróttahús, en áform voru um að rífa húsið og byggja þar íbúðarhúsnæði. Var horfið frá þeim áformum og ákveðið að breyta í staðinn húsnæðinu í íbúðarhúsnæði. 

„Einhverjir höfðu brotist þar inn og kveikt í einhverju smá rusli á gólfi sem er búið að slökkva,“ segir Steinþór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert