Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heldur í opinbera heimsókn til Georgíu í dag.
Þetta er fyrsta heimsóknin af þessu tagi til Georgíu og er henni ætlað að efla tengsl þjóðanna, meðal annars með aukinni samvinnu á sviði loftslagsmála og grænna lausna.
Auk tvíhliða funda með stjórnvöldum verður efnt til viðskiptaþings og vatnsaflsvirkjun Landsvirkjunar og Verkís heimsótt. Einnig mun forsetinn flytja aðalerindi á alþjóðlegri ráðstefnu og fyrirlestur við Tbilisi-háskóla.
Með forsetanum í för er Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, og sendinefnd fulltrúa úr viðskiptalífinu sem hyggjast kanna möguleika á auknu samstarfi í uppbyggingu endurnýjanlegrar orku, m.a á sviði beinnar nýtingar jarðvarma, vatnsaflsvirkjana og fjárfestinga í loftslagslausnum, að því er segir í tilkynningu.
Viðskiptasendinefndin fer saman undir merkjum Green by Iceland, markaðsverkefnis Grænvangs og Íslandsstofu, sem miðar að því að auka vitund um sjálfbæra nýtingu auðlinda á Íslandi og kynna íslenskar grænar lausnir á erlendum mörkuðum.
Í viðskiptasendinefnd forseta Íslands til Georgíu verða fulltrúar frá eftirfarandi fyrirtækjum og stofnunum: Creditinfo Group, Hafþórsstöðum, Landsvirkjun, Infrastructure Investments, Íslenska orkuklasanum, ÍSOR, MAR Advisors, Verkís, og Snorrastofu. Í sendinefndinni er einnig Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, vegna fyrirhugaðs samstarfsverkefnis við norrænudeild Tbilisi-háskóla.
Heimsóknin hefst á morgun með formlegri móttökuathöfn í höfuðborginni Tbilisi þar sem forseti leggur blómsveig að minnisvarða um fallnar þjóðhetjur. Forseti fundar með Salome Zourabichvili, forseta Georgíu, sem býður til hátíðarkvöldverðar honum til heiðurs. Einnig munu forseti, ráðherra og viðskiptasendinefnd heimsækja tvö fyrirtæki sem eiga íslenska samstarfsaðila og hafa viðskiptatengsl við Ísland.
Opinberri heimsókn forseta og sendinefndar til Georgíu lýkur að kvöldi fimmtudagsins 7. mars.