Katrín: Ekki leitt hugann að Bessastöðum

„Ég hef ekki leitt hugann að slíku framboði enda eru …
„Ég hef ekki leitt hugann að slíku framboði enda eru ærin verkefni í forsætisráðuneytinu,“ svaraði Katrín. mbl.is/Samsett mynd/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þurfti að svara því í tvígang á Alþingi hvort að hún hygðist bjóða sig fram til forseta. Hún kvaðst ekki hafa leitt hugann að slíku framboði. 

Þetta kemur fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma í Alþingi fyrr í dag.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, beindi fyrirspurn sinni að Katrínu en hann sagði að í nýliðinni kjördæmaviku hafi ótrúlegur fjöldi kjósenda spurt hann hvort að Katrín ætlaði í forsetaframboð. Uppskar þessi fyrirspurn hans mikinn hlátur í þinginu.

Svar Katrínar virtist þó ekki útiloka framboð.

„Ég ætla bara að segja það að ég trúi því nú varla að í kjördæmaviku þingmanna Flokks fólksins hafi þetta verið eina spurningu - aðalspurningin. Þannig að ég vil bara hughreysta háttvirtan þingmann og segja að ég er bara enn í starfi mínu sem forsætisráðherra og verð hér áfram um sinn,“ svaraði Katrín.

Ekki leitt hugann að framboði

Guðmundur fór þá aftur upp í pontu og sagði þetta ekki svara spurningunni sinni.

„Já eða nei - af eða á: Ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að bjóða sig fram til forseta eða er hann að íhuga það?“ spurði Guðmundur.

„Ég hef ekki leitt hugann að slíku framboði enda eru ærin verkefni í forsætisráðuneytinu,“ svaraði Katrín og uppskar hlátur í þingsalnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert