Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, segir að það sem hafi gerst á laugardaginn hafi verið mjög lítið innskot.
„Við vorum að giska á að þetta hefði orðið hálf til ein milljón rúmmetrar af kviku sem hljóp úr kvikuhólfinu en módelin benda til þess að hæsta gildið hafi verið 1,5 milljón rúmmetrar sem hafi farið úr Svartsengi og inn í ganginn,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, við mbl.is.
Hann segir að þetta sé 1/9 hluti af því sem var þegar gaus 8. febrúar síðastliðinn.
„Við teljum að það séu allar líkur á að það gerist eitthvað aftur fljótlega og þá sennilega í þessari viku. Það létti ekki á neinum þrýstingi í þessari atburðarás á laugardaginn og við búumst við öðru kvikuinnskoti,“ segir Benedikt.
Benedikt segir erfitt að segja til um það hvers vegna ekki hafi farið af stað eldgos á laugardaginn.
„Einn möguleikinn er sá að það er farið að verða minna pláss fyrir kviku að komast inn í þennan gang en við getum ekki útilokað að þetta nái sér aftur á strik og að það verði stór gangur eða stórt eldgos,“ segir Benedikt.
Hann segir að meiri líkur séu á eldgosi en kvikuinnskoti eins og var á laugardaginn en óvissuþættirnir séu margir og erfitt að spá fyrir hvað gerist.
„Fyrst þetta náði sér ekki á strik á laugardaginn hefur ekki orðið neinn þrýstingsléttir að ráði í Svartsengi. Við megum því alveg búast við því að það gerist eitthvað á næstu dögum. Við höfum alveg haldið í þann möguleika á að kvikan gæti læðst upp en líkurnar á því minnka hratt með tímanum. “
Kom ykkur á óvart að ekki skyldi gjósa á laugardaginn?
„Já og nei. Á endanum breytir þetta sér. Þetta heldur ekki endalaust áfram með sama hætti. Móðir náttúra kemur okkur sífellt á óvart og hún breytir sér eins og henni sýnist,“ segir Benedikt.