Lúðvík og Guðlaug nýir forstjórar

Lúðvík Þorgeirsson og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.
Lúðvík Þorgeirsson og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.

Þann 1. mars tóku til starfa tveir nýir forstjórar heilbrigðisstofnana, þau Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, og Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Heilbrigðisráðherra skipar í embættin til fimm ára í senn, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. 

Guðlaug Rakel er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún er einnig með meistaragráðu í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands (HÍ) og hefur jafnframt lokið ýmsum námskeiðum í lýðheilsuvísindum innan læknadeildar HÍ í tengslum við doktorsverkefni sem hún vann að um faraldsfræði notenda bráðamóttaka. Frá árinu 2000 hefur hún sinnt ýmsum stjórnunarstörfum innan heilbrigðiskerfisins. Árið 2019 tók hún við starfi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Landspítala þar til hún var sett tímabundið í embætti forstjóra Landspítala haustið 2021, segir í tilkynningu. 

Lúðvík er viðskiptafræðingur með MSc-gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og leggur stund á nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands með áherslu á mannauðsstjórnun. Síðastliðin fjögur ár hefur Lúðvík gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Áður starfaði hann m.a. hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hann stýrði greiningasviði á einu af þremur kjarnasviðum embættisins. Hann var um tíma framkvæmdastjóri vátrygginga og staðgengill forstjóra hjá European Risk Insurance Company í Englandi. Um árabil var hann forstöðumaður vátrygginga og áhættumats hjá Actavis Group hf. og þar áður forstöðumaður fimmtán útbúa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um allt land, segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert