Guðný Birna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, segir ekkert hafa verið ákveðið um það hvort Rokksafni Íslands verði lokað. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði fyrr í dag að Rokksafninu yrði lokað.
„Já, safninu sem slíku verður lokað en það verður reynt að hafa einhverja muni og minjar frá Rokksafninu inni á milli á bókasafninu,“ sagði Kjartan fyrr í dag í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is greindi frá samþykkti meirihluti bæjarráðs, gegn atkvæði bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, tillögu um að flytja bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll.
Bæjarstjórn tekur málið fyrir á morgun þar sem meirihluti bæjarstjórnar mun samþykkja að flytja bókasafnið í Hljómahöll, að sögn Guðnýjar í samtali við mbl.is.
Guðný segir að meirihluti bæjarstjórnar hafi hvergi sagt að Rokksafninu yrði lokað, heldur sé framtíð þess í skoðun. Þó sé það að minnsta kosti ljóst að Rokksafnið muni ekki vera jafn stórt og það er í dag.
„En að loka því í heild sinni, nei. Það verður skoðað hvernig við getum nýtt einhverja muni eins og bæjarstjórinn kemur inn á, mögulega þarna inni, mögulega í öðrum menningarhúsum. Þetta verður í skoðun í þessum verkefnahópi næstu sjö mánuðina.“
Þó vill Guðný Birna ekki útiloka það að Rokksafninu verði lokað.
Er útilokað að Rokksafninu verði lokað?
„Það þarf bara að koma í ljós í þessari vinnu. En það liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti. Við vitum þó alveg að Rokksafnið verður ekki í þeirri stóru mynd sem það er í núna. En hvort því verður lokað til framtíðar og aldrei neinn angi af því framar, það er bara ekki komið á hreint,“ segir hún. Vinna starfshóps muni leiða það til lykta.
Hún segir að meirihlutinn muni bóka um það að láta verkefnastjóra leiða starfshóp næstu sjö mánuði með forstöðumönnum Hljómahallar, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Bókasafnsins. Í þeirri vinnu verði reynt að finna leiðir fyrir bókasafnið að fara inn í Hljómahöll og framtíð Rokksafnsins skoðuð.
„Við vitum alveg að Rokksafnið verður ekki í þeirri mynd sem það er í núna, en við erum ekkert búin að gefa það út að því verði lokað,“ segir Guðný Birna.
Spurð hvað útskýri þetta misræmi á milli orða hennar og bæjarstjórans segir hún:
„Þetta er náttúrulega eins og bæjarstjórinn segir að vissulega mun bókasafnið inn í þetta rými og fleiri rými inni í Hljómahöll. En það sem við erum að fara að skoða í kjölfarið núna næstu mánuði er hvernig nýtingin verður á húsinu á milli þessara þriggja menningarstofnana,“ segir Guðný og nefnir tónlistarskólann, bókasafnið og Stapa, sem er viðburðarsalur í Hljómahöll.
Bókasafnið muni í byrjun árs 2025 hefja starfsemi sína í Hljómahöll.