Sigmundur vann pöbbkvissið og hópurinn á leið heim

Stefán segir útlit fyrir að hópurinn komist heim í dag.
Stefán segir útlit fyrir að hópurinn komist heim í dag. Samsett mynd/Kristinn Magnússon

„Mér sýnist stefna í að þetta fái allt mjög mikinn „happy ending“,“ segir Stefán Pálsson, varaborgafulltrúi VG og sagnfræðingur, en hann er strandaglópur í Kulusuk ásamt fríðu föruneyti.

„Við eigum flug bókað heim núna í hádeginu og bara 7, 9, 13 að það gangi eftir,“ segir Stefán í samtali við mbl.is 

Sex Íslend­ing­ar á veg­um Vestn­or­ræna ráðsins áttu að taka þátt í Þemaráðstefnu dag­ana 4. til 6. mars í bænum Tasiilaq, en Stefán er með í för sem maki Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Keyrði eins og Bjössi á mjólkurbílnum

Lítið varð þó úr upphaflegum áformum, því um leið og vélin lenti í Kulusuk kom í ljós að ferðalangarnir voru orðnir strandaglópar í bænum og ráðstefnunni hafði verið aflýst. 

Sigmundur Davíð Gunn­laugs­son, formaður Miðflokks­ins, sem er einnig í sendinefndinni, ræddi við mbl.is í gær og sagði hópinn hafa komist í samband við sannkallaðan þúsundþjala­smið sem ræki hót­el í ná­grenni við Kul­usuk og hefði mætt á rútu til að keyra þau á hótelið. 

Stefán ber einnig hótelstjóranum, Jakobi, vel söguna og segir hann sannkallaðan bjargvætt sem hafi keyrt eins og Bjössi á mjólkurbílnum í ófærðinni og allt viljað fyrir þau gera á meðan á dvölinni stóð.

„Það er ergilegast að við séum að fara núna því í kvöld er hér á hótelinu fyrirhuguð frumsýning á nýrri bíómynd sem að gerist einmitt á Grænlandi, sem ég geri ráð fyrir að allir og amma þeirra muni mæta á,“ segir Stefán. Eftirvæntingin eftir myndinni sé þó ekki svo mikil að hann myndi sleppa fluginu núna í hádeginu. 

Hundasleðaferð og púsluspil

Eitthvað þurfa strandaglópar að gera til að stytta sér stundir og segir Stefán að hópurinn og innfæddir hafi ekki dáið ráðalausir og gert gott út aðstæðunum.

„Hér er fólk lausnamiðað og það var bara skipulögð fyrir okkur hundasleðaferð,“ segir Stefán, en ferðin hafi verið mikið ævintýri sem hann hefði síður vilja missa af.

Hann segir ýmis merki þess á hótelinu að fólk verði þar oft lengi strandaglópar og því teljist þau nokkuð heppin að komast heim eftir aðeins tvo daga.

„Hér er mikið af púsluspilum og fæst sem byrja í minna en 1.000,“ segir Stefán og hlær.

Sigmundur varð að vinna 

Einnig greip fyrrverandi dómarinn og spurningahöfundurinn í Gettu betur að sjálfsögðu í Pöbbkviss-spurningar sem hann hafði meðferðis og skipti ferðahópnum upp í tvö lið. Gömlu MR-ingarnir voru að sjálfsögðu saman í liði.

Spurður hver hafi hlotið sigur úr býtum svarar Stefán glettinn:

„Tja, það var alveg nauðsynlegt, Sigmundur varð að vinna. Hann hefði örugglega ekkert tekið ósigri vel,“ en ásamt Sigmundi voru Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir, þingmaður Viðreisn­ar, og Hildur Edwalds, starfsmaður skrif­stofu Alþing­is, í sigurliðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert