Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að Samtök atvinnulífsins þurfi að klára ákveðin atriði sem standa út af borðinu áður en hægt verði að undirrita nýja kjarasamninga á næstu dögum.
„Samkomulag varðandi forsenduákvæði kjarasamninga stendur og um það er sátt á milli aðila. Hið sama má segja um launalið samninganna,“ segir Sólveig á vef Eflingar.
Breiðfylking stéttafélaga og Samtök atvinnulífsins hafa fundað stíft síðustu dagana og klukkan 9 hófst fundur í Karphúsinu. Forkólfar breiðfylkingarinnar hafa sagt að þeir séu bjartsýnir á að samninga takist á næstu dögum.
Sólveig segir að það sé einkum þrennt sem standi út af í málum Eflingar.
„Í fyrsta lagi er það útfærsla á styrkingu uppsagnarverndar starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Efling hefur þar lagt fram tillögur sem eru í raun útfærsla á lögum um vernd uppljóstrara og eru mjög aðgengilegar fyrir atvinnurekendur. Tillaga Eflingar myndi aðeins snerta vinnustaði þar sem ekki eru starfandi trúnaðarmenn og þar sem fyrirtæki hafa ekki sjálf sett sér verklagsreglur um meðhöndlun ábendinga og kvartana starfsfólks,“ segir Sólveig.
Hún segir að þá myndu ákvæðin aðeins eiga við um vinnustaði þar sem vinna fimm eða fleiri starfsmenn.
„Í öðru lagi fer Efling fram á að gerðar verði orðalagsbreytingar í kafla samninganna um trúnaðarmenn, og eru þær kröfur mjög viðráðanlegar fyrir atvinnurekendur. Þær snúa meðal annars að því hægt sé að fjölga trúnaðarmönnum á stærri vinnustöðum, en eins og staðan er í dag er gert ráð fyrir einum trúnaðarmanni á vinnustað þar sem vinna 5-50 starfsmenn og tveimur þar sem fjöldinn er meiri.“
Sólveig segir að ekki sé gert ráð fyrir að trúnaðarmenn séu fleiri en tveir og fari Efling fram á að framvegis verði hægt að skipa fleiri trúnaðarmenn í eðlilegu hlutfalli við fjölda starfsfólks á hverjum vinnustað. Hún segir að það þurfi að tryggja að trúnaðarmenn fái greidd full regluleg laun, ekki bara dagvinnulaun við setu á trúnaðarmannanámskeiðum.
„Í þriðja lagi er enn ekki búið að klára breytingar á texta kjarasamnings sem snúa að kjörum ræstingafólks, þess hóps á almennum vinnumarkaði sem býr við kröppust kjör af öllum samkvæmt könnunum. Þótt sjái til lands í öðrum þáttum varðandi kjör ræstingafólks vantar enn upp á að skerpt verði á orðalagi. Hefur það aðallega með að gera skilgreiningar á því hvenær ræstingafólk er í tímamældri ákvæðisvinnu og hvenær ekki,“ segir Sólveig.
Hún segir að brögð hafi verið að því að atvinnurekendur reyni að skjóta sér framhjá því að greiða umsamið álag sem með réttu á að greiða þegar um tímamælda ákvæðisvinnu er að ræða. Með því að hnykkja á orðalagi í samningunum hvað þetta varðar vill félagið taka af öll tvímæli.