Úrskurðurinn stillir fólki upp við vegg

Sækja má nú fólk til saka í Alabama fyrir að …
Sækja má nú fólk til saka í Alabama fyrir að eyðileggja fósturvísa. Ljósmynd/Colourbox

Einhverjir hafa eflaust fylgst með fréttum af því þegar hæstiréttur Alabama í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu 16. febrúar að frosnir fósturvísar væru börn og að sækja mætti fólk til saka fyrir að eyðileggja þá.

Þá hefur um tugur ríkja í Bandaríkjunum nú sett lög sem byggjast á þeirri skilgreiningu að barn verði til strax við getnað en Alabama er fyrsta ríkið sem ákveður að fósturvísir sé manneskja. Hefur þetta meðal annars leitt til þess að öllum tæknifrjóvgunum hefur verið frestað á stærsta sjúkrahúsi Alabama þar sem sjúkrahúsið vill vernda starfsfólk fyrir málsóknum því refsiábyrgð getur skapast eyðileggist vísarnir fyrir slysni. Úrskurðurinn bannar þó alls ekki tæknifrjóvgun en hins vegar er raunin sú að yfirleitt eru ekki allir fósturvísar sem frystir eru notaðir. Það að þeir séu nú skilgreindir sem börn vekur ýmsar spurningar um hvernig megi umgangast þá og geyma.

Sjúklingur eyðilagði fósturvísa

Upphaf dómsmálsins má rekja til þess þegar þrjú pör fengu ekki tæknifrjóvgun eftir að fósturvísar þeirra eyðilögðust. Í ljós kom að sjúklingur hafði ráfað inn á rannsóknarstofu, þar sem vísarnir voru geymdir, og eyðilagt þá með því að handleika vísana og missa þá. Var málið sótt á grundvelli laga í Alabama um ofbeldi gegn börnum sem leitt getur til dauða.

Ná þau lög yfir fóstur en í þeim eru fósturvísar hins vegar ekki tilgreindir sérstaklega. Málið varðaði því spurninguna hvort sækja mætti sjúklinginn, sem eyðilagði fósturvísana, til saka fyrir manndráp. Var svar dómstólsins á þá leið að vissulega væri hægt að gera viðkomandi ábyrgan. Það hefði lengi verið afstaða dómstólsins að „ófædd börn væru börn“ og það sama ætti við um frosna fósturvísa.

Ýmsir sérfræðingar hafa sagt niðurstöðuna grafa undan tæknifrjóvgun og skapa mikla óvissu fyrir mikinn fjölda fólks sem glímir við ófrjósemi. Þá hafa áhyggjur meðal annars vaknað vegna fólks í viðkvæmri stöðu, þar á meðal sjúklinga í krabbameinsmeðferðum þar sem krabbamein getur ógnað frjósemi.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert