Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist vongóður um að samningar takist á allra næstu dögum, en samningafundur breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins hefst í Karphúsinu klukkan 9.
„Útlitið er gott og við eigum að geta komist í land,“ sagði Vilhjálmur við mbl.is en hann var þá rétt að leggja af stað á samningafundinn frá heimili sínu á Akranesi.
Vilhjálmur segir að það séu ekki mörg mál sem standi út af borðinu, en samningsaðilar funduðu stíft alla helgina í Karphúsinu.
„Við erum búin að vera í sambandi við stjórnvöld varðandi aðgerðarpakka þeirra en við höfum kallað eftir frekari viðbrögðum frá sveitarfélögunum. Við þurfum að fá nokkur svör frá þeim og við höfum óskað eftir því að fá að heyra frá þeim í dag,“ sagði hann.