110 milljónir í net- og upplýsingaöryggi

Upphæðin í málaflokkinn hefur hækkað umtalsvert.
Upphæðin í málaflokkinn hefur hækkað umtalsvert. AFP/Fred Tanneau

Um 110 milljónum króna var veitt á síðasta ári til eftirlits Fjarskiptastofu í tengslum við öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða.

Upphæðin í þennan málaflokk hefur hækkað umtalsvert á milli ára. Árið 2021 nam hún um 20 milljónum króna og árið 2022 var hún komin upp í tæpar 87 milljónir.

Þetta kemur fram í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni, þingmanns Pírata, um eftirlit með netöryggi.

Fjarskiptastofa.
Fjarskiptastofa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ein skyldubundin tilkynning borist

Allir mikilvægir innviði eru undir þeirri skyldu að tilkynna til netöryggissveitar CERT-IS um öll alvarleg atvik og áhættu sem getur steðjað að net- og upplýsingakerfum þeirra.

„Einungis ein skyldubundin tilkynning hefur borist netöryggissveitinni sem hefur verið miðlað til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds, í þessu tilfelli Orkustofnunar, vegna atviks sem átti sér stað árið 2023. Þess ber þó að geta að átta tilkynningar sem þessar hafa borist vegna alvarlegra öryggisatvika hjá fjarskiptafyrirtækjum á grundvelli fjarskiptalaga,” segir í svarinu.

„Einnig er mikilvægt að taka fram að Fjarskiptastofa hefur farið í frumkvæðisrannsóknir vegna atvika sem ekki hafa verið tilkynnt hjá aðilum sem falla undir lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða sem og fjarskiptalög,” segir þar einnig.

Fram kemur sömuleiðis í svarinu að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hafi lagt fram tillögur að markmiðum og aðgerðum Fjarskiptastofu til að sinna netöryggismálum í fjármálaáætlun fyrir árin 2025 til 2029.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert