Allir dómarar Landsréttar vanhæfir

Davíð Þór Björgvinsson, starfandi forseti Landsréttar, hefur komist að þeirri …
Davíð Þór Björgvinsson, starfandi forseti Landsréttar, hefur komist að þeirri niðurstöðu að allurr Landsréttur sé vanhæfur í málinu. Á stærstu myndinni er Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms, í forgrunni, en í bakgrunni eru þeir Ragnar Hall og Arnar Már Stefánsson í skikkjum. Á milli þeirra er svo Guðni G. Hall, sonur Ragnars. Er myndin úr aðalmeðferð málsins við héraðsdóm árið 2022. Samsett mynd

Allir dómarar Landsréttar eru taldir vanhæfir til að dæma í svokölluðu Gnúps-máli vegna starfa eins dómara við réttinn fyrir rúmlega 15 árum síðan. Til að koma í veg fyrir tortryggni gagnvart dóminum í heild þótti nauðsynlegt að allir dómarar væru vanhæfir, en óttast var að sú staða gæti komið upp að dómarar myndu fyllast óhlutdrægni og staðið vörð um starfsheiður samdómara síns.

Um er að ræða einkamál þar sem félagið Lyfjablóm (áður Björn Hallgrímsson ehf.) krefur Þórð Má Jóhannesson og Sólveigu Pétursdóttur, fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra  hún sit­ur í óskiptu búi eig­in­manns síns heit­ins, Krist­ins Björns­son­ar, um samtals 2,3 milljarða. Voru þau Þórður og Sólveig sýknuð í héraði.

Landsréttardómari vitni í málinu

Er ástæða vanhæfisins að Landsréttardómarinn Aðalsteinn E. Jónasson, er eitt af vitnum í málinu. Var hann lögfræðingur hjá Gnúpi fjárfestingafélagi hf. árið 2007, en málið snýst um það tímabil. Aðalsteinn var sjálfur ekki dómari í málinu, en aðrir dómarar töldu að sú staða að vega og meta sönnunargildi og trúverðugleika framburðar hans gerðu þá mögulega vanhæfa.

Var sitjandi forseti Landsréttar, Davíð Þór Björgvinsson, fenginn af þeim til að fara yfir mögulegt vanhæfi og kallaði hann til aðila málsins, sem enginn hafði farið fram á vanhæfi dómaranna, til að fá frekari skoðun þeirra á stöðunni.

mbl.is fjallaði ítarlega um það þinghald og hversu óvanalegt það sé að dómarar biðji forseta dómstóls til að meta mögulegt vanhæfi allra dómara við dómstólinn.

Í úrskurði Davíð Þórs kemur fram að í greinargerð Þórðar og Sólveigar sé meðal annars vísað til framburðar Aðalsteins til stuðnings málsástæðum sínum. Einnig vísi Lyfjablóm í vitnisburð hans í greinargerð sinni.

Geti þurft að vega og meta trúverðugleika Aðalsteins

„Í samræmi við þetta er ekki útilokað að dómarar Landsréttar geti staðið frammi fyrir því að vega og meta sönnunargildi og trúverðugleika framburðar samdómara síns Aðalsteins við úrlausn málsins,” segir í úrskurðinum.

Er í úrskurðinum vísað almennt til vanhæfisákvæða í lögum um meðferð einkamála. Segir að þeim ákvæðum sé “öðrum þræði ætlað að koma í veg fyrir að tortryggni skapist í garð dómara og dómstóla við meðferð máls” og er vísað í Hæstaréttardóm frá 2010 um vanhæfi meðdómara vegna vináttu hans við yfirmatsmann í málinu, en yfirmat hans var talið mikilvægt gagn í málinu.

Vanhæfið smitast

Er í úrskurðinum næst komist að þeirri niðurstöðu út frá þessu og með vísan í eitt vanhæfisákvæðið sem segir að dómari sé vanhæfur ef „fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.”

„Þegar þær aðstæður sem fyrir liggja í málinu eru metnar í heild leiðir af framangreindu að telja verður að fyrir hendi séu hlutrænt séð réttmætar ástæður til þess að draga í efa óhlutdrægni dómara við Landsrétt, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð einkamála. Af þeim sökum þykir rétt, eins og hér á stendur, að allir dómarar réttararins víki sæti í málinu,“ segir í úrskurðinum.

Svarar þar með rétturinn þeirri spurningu játandi sem Davíð Þór varpað var fram í þinghaldinu 11. febrúar um „hvort van­hæfi Aðal­steins smit­ist yfir á dóm­ara og dóm­inn í heild.“

Í þinghaldinu kom meðal annars fram í máli Davíð Þórs að dómararnir þrír sem höfðu upphaflega haft málið hjá sér hefðu lagt það í hans hendur því vafaatriðið væru uppi sem vörðuðu vinnu­brögð Aðal­steins á þess­um tíma, „að hann hefði ekki staðið sig í stykk­inu.“

Í þinghaldinu var gefið upp að úrskurður ætti að liggja fyrir vikuna eftir. Hins vegar liðu þrjár og hálf vika áður en úrskurðurinn var að lokum kveðinn upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert