„Auðvitað bregður manni þegar svona gerist“

Sigurður Ingi Jóhannsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson. mbl.is/Eyþór/María Matthíasdóttir

Ráðherrarnir Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Sigurður Ingi Jóhannsson segja að Alþingi þurfi að fara vel yfir öryggismálin í kjölfarið á uppákomunni sem varð á Alþingi í gær þegar aðgerðarsinnar hófu háreysti á þingpöllum og einn þeirra hafi gert sig líklegan til að stökkva niður í þingsalinn.

„Ég var nú reyndar ekki staddur í þingsal en auðvitað bregður manni þegar svona gerist,“ segir Guðmundur Ingi, félags- og vinnumarkaðsráðherra, við mbl.is.

„Það fyrsta sem kom upp í hugann er að maður finnur til með fólki sem á um sárt að binda í þeim aðstæðum sem eru uppi en það er auðvitað mikilvægt að þingstörfin geti gengið sem skildi á löggjafasamkundunni.“

Spurður hvort þetta atvik kalli á frekari öryggisgæslu segir Guðmundur Ingi:

„Það er eitthvað sem þingið þarf að meta og ég treysti forseta Alþingis og skrifstofustjóranum að meta það með lögreglunni,“ segir Guðmundur.

Kallar á skoðun á öryggisgæslu

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra var ekki staddur í alþingishúsinu þegar atburðurinn átti sér stað.

„Ég sá þetta bara í fréttum og auðvitað er svona lagað alltaf graf alvarlegt og kallar augljóslega á skoðun á öryggisgæslu,“ segir Sigurður við mbl.is.

Sigurður segir að það sé aukin pólarasering hér á landi sem og í öðrum samfélögunum en honum finnst mikilvægt að geta haldið í það sem er þekkt á Íslandi þar sem hefur verið ákveðið frjálsræði.

„Eðlilegast er að skoða vel yfir svona atburði og átta sig á því hvort það sé hægt að koma í veg fyrir þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert