Reykjavíkurborg hefur auglýst eftir samstarfsaðila til að reka parísarhjól á Miðbakka í Reykjavíkurhöfn. Áætlað er að parísarhjólið verði opið yfir sumartímann.
Verkefnið á rætur sínar í hugmyndavinnu innan borgarinnar um haftengda upplifun, en sá starfshópur setti fram fjölmargar hugmyndir um hvernig bæta mætti lífsgæði borgarbúa og lýðheilsu í skýrslu sem kom út síðasta haust, segir í tilkynningu frá borginni.
Í auglýsingu borgarinnar er gert ráð fyrir að mögulegur rekstraraðili muni standa allan straum af kostnaði við uppsetningu og rekstur parísarhjóls, en framlag borgarinnar til samstarfsins verði afnot af lóð Faxaflóahafna í fyrirfram ákveðinn tíma.
Svæðið sem borgin gæti lagt til undir verkefnið er 725 fermetrar og þar ætti að vera hægt að koma fyrir 20 metra löngum vagni með parísarhjóli. Hæðartakmörk eru 30 metrar. Þá er í auglýsingu gerðar kröfur um parísarhjólið og annar búnaður þoli íslenskar aðstæður þ.m.t. vindálag og jarðhræringar.
Áhugasamir aðilar hafa frest til 22. mars að senda inn tillögur.