Fjárhagsstaða foreldra versnar

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar versnar staða foreldra á milli ára.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar versnar staða foreldra á milli ára. Ljósmynd/Colourbox

Íslendingum sem hafa ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín hefur fjölgað frá því í fyrra, og er barnafólk líklegra til að vera með yfirdrátt en aðrir.

Þá eiga fjórir af hverjum tíu á vinnumarkaði erfitt með að ná endum saman um mánaðamót og getur svipað hlutfall ekki mætt óvæntum 80 þúsund króna útgjöldum án þess að stofna til skuldar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vörðu -Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, um lífsskilyrði launafólks, sem var kynnt í dag. Rannsóknin náði til félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og BSRB – heildarsamtaka stéttafélaga starfsmanna í almannaþjónustu. Yfir 21 þúsund svör bárust.

Almennt gefur skýrslan til kynna að staða launafólks sé heilt yfir sambærileg stöðu þess fyrir ári síðan en verri en árið 2022.

Fjárhagsstaða kvenna verri en karla

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar versnar staða foreldra á milli ára og á barnafólk almennt við þyngri byrði húsnæðiskostnaðar en barnlausir.

Þá býr tæpur fjórðungur einhleypra foreldra við efnislegan skort og ríflega sex af hverjum tíu einhleypum mæðrum gætu ekki mætt óvæntum 80 þúsund króna útgjöldum.

Fjárhagsstaða kvenna kemur jafnframt verr út en karla á öllum heildarmælikvörðum. Eru konur að sama skapi háðari maka um framfærslu en karlar.

Er andleg heilsa ungra kvenna og einhleypra mæðra áberandi verri en annarra hópa.

Sjá ekki fyrir sér að setjast hér að til frambúðar

Innflytjendur eiga erfiðara að mæta óvæntum útgjöldum, ná endum saman og greiða fyrir grunnþætti fyrir börnin sín en innfæddir Íslendingar. Þá búa þeir við þyngri húsnæðisbyrði og eru í mun minna mæli í eigin húsnæði.

Mælist staða þeirra verri en meðal innfæddra fjórða árið í röð.

Meira en helmingur innflytjenda á Íslandi sér fyrir sér að setjast hér að til frambúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert